Verum stolt af Kópavogi

487

Það er margt í bænum okkar sem við getum glaðst yfir og verið stolt af. Möguleikarnir eru margir til að gera enn betur á mörgum sviðum.

Samgöngumál í Kópavogi
Kópavogur er vel í sveit settur á höfuðborgarsvæðinu miðað við samgöngur. Um bæinn liggja tvær meginstofnbrautir, Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut, sem tengja saman byggðina. Samgöngukerfið í Kópavogi er nýtt og nýlegt og tekur mið af þörfum þeirra sem þar búa og þurfa að fara um.

Hver kannast ekki við þunga umferð um Fífuhvammsveginn
Umferð á morgnanna er erfið á Fífuhvammsvegi á þeim tíma sem skólarnir eru starfandi en það helgast fyrst og fremst að því að það vantar einn legg, Arnarnesveginn, í stofnbrautarkerfi bæjarins. Það þarf að tengja Arnarnesveginn frá Salaskóla niður að hringtorgi á Reykjanesbraut, hringtorgið sem er á mörkum Garðabæjar og Kópavogs. Arnarnesvegurinn er stofnvegur og veghaldari er ríkið. Kópavogsbær hefur ítrekað reynt að fá fjármagn á vegaáætlun til þess að fara í þessa framkvæmd. Arnarnesvegurinn er ein veigamesta samgöngubótin í samgöngukerfi Kópavogsbæjar í dag en stór hluti Kópavogsbúa býr í efri byggðum bæjarins eða um 13 þúsund manns. Það þarf að létta umferðarþunganum af samgöngukerfinu og það mun Arnarnesvegurinn gera. Arnarnesvegurinn mun tengja efri byggðir Kópavogs við neðri byggðirnar.

Íþróttabærinn Kópavogur
Kópavogur er oft kallaður „mekka“ íþrótta á Íslandi en fjölmörg íþróttafélög eru starfandi í bæjarfélaginu. Það hefur ekki orðið til að sjálfu sér. Til þess að íþróttastarf geti blómstrað sem best hefur bærinn lagt mikið til starfsins með því að byggja upp bestu aðstöðu fyrir flestar greinar íþrótta. Aðstaða til íþróttaiðkunar er mjög góð. Við eigum frábært íþróttafólk á öllum aldri í fjölmörgum íþróttagreinum og margir afreksmenn í íþróttum koma úr Kópavogi. Að baki öflugs íþróttastarfs stendur fjöldi sjálfboðaliða sem hafa til margra ára unnið ómetanlegt starf í þeirra þágu. Í Kópavogi hefur tekist að skapa umhverfi sem hvetur fólk á öllum aldri til að hreyfa sig og stunda heilsusamlegt líferni. Í því tilviki má nefna göngu- og hjólastígakerfi bæjarins sem liggur um bæinn þveran og endilangan.

Kópavogur sem ferðamannabær
Ef skoðaður er íþróttabærinn Kópavogur í samhengi við ferðamennsku er augljóst notagildi þessara stórkostlegu íþróttamannvirkja sem til eru í bænum og ósjálfrátt kemur upp í hugann íþróttaferðamennska. Saga, menning og náttúra á fullt erindi við alla ferðamenn, erlenda sem innlenda. Það þarf að koma bænum á kortið með þessum formerkjum því að í landi bæjarins er mikill fjársjóður sögu.

Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi þann 8. febrúar.