Veiruárið 2020

617

Efnahagslegar afleiðingar af Covid 19 verða miklar og alvarlegar. Við erum háð opnun landamæra okkar og annarra landa til þess að fá til baka það sem hefur tapast í fækkun ferðamanna. Við verðum að læra af fortíðinni og taka mið af breyttum tvísýnum heimi sem ein lítil, en skelfileg veira hefur nánast fellt flest hagkerfi heimsins og dregið marga til dauða. Langflestar þjóðir hafa tekið þá ákvörðun að vernda heilsu fólks frekar en efnahag og spurningin sem margir eru farnir að spyrja sig, hversu lengi ætli sé hægt að standa við þá ákvörðun og hverjar verða afleiðingarnar á samfélagið?

Fyrirtæki mörg hver hafa þurft að loka, fólk hefur misst vinnuna og ríkissjóður rýrnar. Ég er ánægð með viðbrögð ríkisstjórnarinnar en velti fyrir mér enn og aftur breyttri framtíð, rétt eins og eftir bankahrunið 2007. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð sem undanfarið hefur blómstrað á ferðaþjónustu, nýsköpun og tækni ásamt því að afkoma útflutningsgreina heldur enn velli. Fjárhagur Kópavogs mun standa af sér áfallið og endurspeglar fjárhagsáætlun bæjarins þá stefnu að halda áfram framkvæmdum og hlúa að þeim sem standa höllum fæti. Mikilvæg skref hafa verið tekin til þess
að vernda afkomu og heilbrigði Íslendinga í núverandi krísuástandi en hins vegar er ljóst að hlúa þarf að t.d geðheilbrigði þjóðarinnar eftir mikið álag undanfarinna mánaða.

Ástandið og ungt fólk.
Ótti greip um sig þegar veirunnar varð vart. Ástandið magnaðist og aðgerðir hertust. Sumarið gaf okkur örlítið frí en þá tóku ósköpin aftur við. Viðvarandi óttatilfinning og óvissa um framtíðina dregur þrek úr okkur öllum. Mestar áhyggjur hef ég af unga fólkinu okkar sem á að vera njóta jafnvel bestu ára sinna núna. Ungt fólk sem hefur nú verið látið dúsa heima í fjarkennslu án sýnilegs stuðnings, margir detta úr skóla, úr rútínu og missa félagsleg tengsl. Ég tel að við sem erum eldri ættum lítið að kvarta nema þá bara rétt í hvert öðru. Við getum beðið, en unga fólkið okkar sem nú er að mótast til framtíðar þarf aukinn skilning og svigrúm. Það er óskiljanlegt hversu erfitt það hefur verið til dæmis fyrir framhaldsskóla og háskóla að halda ekki úti örlitlu skólastarfi. Slíkt hefði mátt hugsa sér með því til dæmis að nýta önnur húsnæði sem annars standa tóm á þessum veirutímum s.s. hótel, veitingahús og menningarstofnanir. Þetta hefði verið gott til þess að draga úr mögulegu brottfalli úr námi og virkja félagslega hæfni þeirra sem nú einskorðast við tölvu. Einnig hefði mátt
draga línuna við 18 ára aldur en ekki 15 ára þegar kemur að íþróttaiðkun. Íþróttafélögin gegna mikilvægu hlutverki í lýðheilsu og geðheilbrigði ungmenna. Þar sem lögð er áhersla á aga, félagsstarf og reglulega hreyfingu.

Aukin tíðni ofbeldis- og barnaverndarmála; Geðræktarhús!
Í veiruástandi hefur heimilisofbeldismálum og tilkynningum til barnaverndar fjölgað. Slíkt vekur miklar áhyggjur. Einhverjir eru fastir inn á heimilum með ofbeldisfólki komast hvorki í vinnu né skóla, og hefur jafnvel neyðarskýlum og ýmsum vistunum verið lokað. Álagið á félagsþjónustu bæjarins er mikið og þurfum við að búa okkur undir mikla sáluhjálparþörf þegar þessu
umsátursástandi veirunnar lýkur. Margir munu þurfa mikinn stuðning og hefur verið bent sérstaklega á tvo hópa sem munu líklega koma illa út úr þessu ferli, það eru konur og ungt fólk á framhaldsskóla- og háskólaaldri. Bæjarstjórn ákvað að að ljúka byggingu hressingarhælisins, sem nú verður Geðræktarhús. Stýrihópur lýðheilsu ákvað leið sem ég vona að verði endurskoðuð, það er að halda námskeið á vegum bæjarins fyrir börn á grunnskólaaldri og leigja út aðstöðu til sérfræðinga. Ég tel að í ljósi þess sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum mánuðum ættum við að opna dyr þessa Geðræktarhúss fyrir frjálsum félagasamtökum sem eru sérhæfð í fyrstu aðstoð fyrir ólíka hópa. Slíkt væri í takti við þau kosningaloforð sem við gáfum fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. Það er mikil þekking í slíkum félagasamtökum og eru þau öllum kunn fyrir sín mikilvægu störf. Í Geðræktarhúsi vil ég búa þeim aðstæður til að auka ennfrekar þá mikilvægu samfélagsaðstoð sem þau veita öllum sem til þeirra leita en ekki að Kópavogsbær fari í samkeppni við þau um geðheilsuaðstoð eða búi til stofnun með stöðugildum. Þó svo að með komu bólefnis getum við öll andað örlítið léttar, að þá þurfum við að búa okkur undir að það verða margir sem munu þurfa á aðstoð að halda hvort sem hún er fjárhagsleg eða andleg. Skipuleggja þarf því aðgerðir og huga að því fjármagni sem mögulega þarf til þess að takast á við afleiðingar veiruársins 2020.

Karen Elísabet Halldórsdóttir,
formaður lista- og menningarráðs og bæjarfulltrúi

Grein úr 70.árg. VOGA. Hægt er að lesa blaðið í heild HÉR