Vangaveltur um sorpmálin

456

Kópavogur – tveggja tunnu flokkunarkerfi

Er ruslið okkar einhvers virði? Svarið er tvímælalaust já, því það getur orðið hráefni í nýjar vörur og þannig sparað urðunarkostnað. Kröfur til flokkunar og endurvinnslu eru stöðugt að aukast.

En eins og fram hefur komið á ljósvakamiðlum nýlega ætlar Kópavogur nú í vor að stíga skref til aukinnar flokkunar á sorpi til endurvinnslu með innleiðingu á sérstakri endurvinnslutunnu, blárri tunnu fyrir pappírsúrgang.

Kópavogur verður þar með fyrsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, ásamt Mosfellsbæ til að flokka sorp og endurvinna frá hverju heimili í bænum.

Um níu þúsund bláum endurvinnslutunnum verður dreift til heimila bæjarbúa í maí og fram eftir júní. Þessi tunna kemur til viðbótar við gráu tunnuna, sem fyrir er.

Gjaldtaka fyrir hina nýju endurvinnslutunnu er innifalin í sorphirðugjaldi.

Bláa tunnan og gráa tunnan

Bláa tunnan er ætluð undir pappírsúrgang eins og dagblöð, hvítan prentpappír, sléttan pappa t.d. fernur og morgunkornskassa og einnig minni bylgjupappakassa. Tilgangur verkefnisins er að koma endurvinnanlegum blaða- og pappírsúrgangi í réttan farveg hjá sveitarfélaginu og þar af leiðandi minnka sorp sem fer til urðunar. Með því að endurnýta pappírinn sparast hráefni, kemísk efni og orka sem annars þarf í meira mæli þegar pappír er unnin úr trjám. Með því að flokka minnkar rúmmál þess sorps sem þarf að urða. Það sparar umtalsvert landrými á urðunarstöðum.

Gráa tunnan verður undir almennt sorp og lífrænan úrgang. Með almennu sorpi er átt við óflokkaðan úrgang sem ekki hefur skilgreindan endurvinnsluferil og er því urðaður en járn og ál er flokkað frá áður.

Á hverju ári falla til um 175 kg af sorpi á hvern íbúa Kópavogs eða samtals um 5.250 tonn á ári. Með tveggja tunnu flokkunarkerfinu er vonast til að endurvinna um 44 kg af þesum 175 kg eða um fjórðung.

Kópavogur og Mosfellsbær fóru í sameiginlegt útboð á endurvinnslutunnum og var tilboð

Hafnarbakka – Flutningatækni ehf. hagstæðast.

Nónhæð – þriggja tunnu flokkunarkerfi

Nónhæðin sem er um 570 íbúða hverfi, eða um 5% af íbúðum í Kópavogi var valin sem tilraunahverfi fyrir sorpflokkun, þriggja tunnu kerfi, á höfuðborgarsvæðinu í júní 2009. Gert hefur verið mat á verkefninu og samkvæmt því tókst verkefnið vel miðað við stuttan undirbúningstíma og hve hratt það var innleitt.

Kostir og gallar flokkunarkerfa

Í tilraunaverkefninu er brún tunna fyrir lífrænt sorp, græn tunna fyrir endurvinnanlegt sorp og grá tunna fyrir óendurvinnanlegt sorp. Helsti kosturinn er að þessi flokkun er mun ítarlegri heldur en tveggja tunnu kerfið býður upp á og þess vegna óþarft að mestu að nota endurvinnslustöðvarnar. Ef bornar eru saman endurvinnslutunnurnar græna og bláa tunnan er munurinn sá að í grænu tunnuna er auk pappírs allt endurvinnanlegt plast og málmar. Helstu gallar við þetta annars ágæta kerfi er tunnufjöldinn og miðað við að í Kópavogi eru um 10.700 íbúðir þarf um 22 þúsund tunnur, þyrfti að bæta við tveimur tunnum á íbúð þ.e.a.s. einni brúnni tunnu og einni grænni tunnu en kostnaður við það væri verulegur. Annar ókostur við þriggja tunnu flokkunarkerfið er að lífræna sorpið er skilið frá almenna sorpinu sem er urðað en við það næst ekki nálægt því eins mikið metangas úr haugunum.

SORPA bs.

SORPA bs. er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Byggðasamlaginu er ekki ætlað að skila hagnaði í formi arðgreiðslna heldur er ávinningurinn samfélaginu öllu til hagsbóta, þ.e. „hagnaður“  SORPU er samfélaglegur. Þó verður að hafa í huga að reka þarf SORPU fyrir sjálfsaflafé sem duga skal fyrir almennum rekstri, eðlilegu viðhaldi og þróun fyrirtækisins.

Flokkun, söfnun og endanleg meðhöndlun úrgangs er hluti af óslitinni keðju verkefna sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.

Metangas

SORPA bs. hefur fangað metan sem myndast á urðunarstaðnum í Álfsnesi frá 1996. Metanið er notað á ökutæki, t.d. alla sorpbíla sem þjónusta íbúa höfuðborgarinnar auk tveggja strætisvagna. Ætlað er að metan sem myndast á urðunarstaðnum í Álfsnesi gæti þjónustað 4.000–5.000 smærri ökutæki. Ef hafin væri framleiðsla á metani úr lífrænum úrgangi á skipulagðan hátt mætti framleiða metan sem dugar á 8.000–10.000 smærri ökutæki. Þetta samsvarar um 12–15 milljón lítrum af bensíni á ári, miðað við að akstur sé 15.000 km/ári og bensíneyðsla sé 10 l/100 km.

Gjaldeyrissparnaður þessa samsvarar ca 1.100-1.350 milljónum á ári. Verksmiðja með slíka framleiðslugetu kostar í uppsetningu um 1.000–1.500 milljónir. Samfélagslegur ávinningur er augljós af slíkri framleiðslu og hún yrði fljót að borga sig upp. Þetta er hinn hagræni sparnaður samfélagsins. Hinn umhverfislegi sparnaður felst í notkun á lífrænu eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis sem dregur þá úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Á Íslandi sem erlendis er metan þekkt sem öruggt, umhverfisvænt og hagfellt ökutækjaeldsneyti en um allan heim er það einnig mikið notað til húshitunar, eldunar og rafmagnsframleiðslu. Metan er hægt að framleiða úr öllu lífrænu efni á yfirborði jarðar (nútíma-metan). SORPA bs. hefur framleitt nútíma-metan ökutækjaeldsneyti frá árinu 2000 úr hauggasi sem myndast við niðurbrot á lífrænu efni á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi.

Samantekt

Með því að draga úr úrgangi og stuðla að ábyrgri meðhöndlun hans er annars vegar dregið úr hættu á mengun umhverfisins og hins vegar dregið úr sóun á verðmætum og landrými til urðunar.

Meðhöndlun úrgangs hefur batnað til muna á síðustu árum. Frá árinu 2000 hefur tegund og magn úrgangs sem sveitafélög taka á móti aukist. Markviss skráning sveitarfélaganna á tegundum úrgangs hefur smám saman gefið skýrari mynd af magni sorps sem meðhöndlað er á Íslandi.

Markmið landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2004-2016 er að draga markvisst úr myndun úrgangs, auka endurnotkun og endurnýtingu hans og minnka magn sem fer til endanlegrar förgunar.

Til að sveitarfélag nái árangri í nýtingu úrgangs þarf það að taka ákvörðun um hvernig best sé að flokka úrgang. Kópavogur mun koma upp tveggja tunnu flokkunarkerfi á öll heimili í sveitarfélaginu til að mæta markmiðum landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs.