Umhverfismál er hagsmunamál allra í nútímaþjóðfélagi

389

Undanfarna mánuði hafa Íslendingar verið duglegir að plokka en það snýst um að ganga eða skokka og tína rusl í leiðinni. Áhrifin hafa verið alveg frábær og sýnir hversu megnug við erum þegar við tökum höndum saman. Plokkið hefur þó ekki bara minnkað ruslið í umhverfinu okkar heldur hefur það líka aukið umhverfisvitund fólks og hefur þannig víðtækari áhrif eins og t.d. á flokkun sorps heima fyrir.

Kópavogsbúar hafa verið öflugir í að nýta sér bláu tunnuna en í hana má setja bæði pappír og plast saman. Íbúar hafa sýnt að þeir vilja flokka heimilissoprið og það er því eðlilegt bæta enn frekar við þá þjónustu. Þannig er hægt að fjölga endunvinnsluflokkum bæði á heimilum sem og með öflugum grenndargámastöðvum. Mikilvægt er einnig að hvetja og hjálpa fyrirtækjum bæjarins til að minnka úrgangsmyndun, auka flokkun sorps og fegra umhverfið og þá sérstaklega á stóru atvinnusvæðunum vestast á Kársnesinu og í Smiðjuhverfinu.

Í samgöngum og orkunotkun er ýmislegt hægt að gera til að huga að umhverfisáhrifum. Mikilvægt er að Kópavogsbær tryggi góðan aðgang að raforku og styðji þannig við frekari rafbílavæðingu bæði hjá fyrirækjum og heimilum. Það er ekki síður mikilvægt að bæta enn frekar aðstöðu hjólreiðafólks en eftir því sem hjólreiðastígakerfið þéttist og eflist verða hjólreiðar sem samgöngumáti vinsælli. Nauðsynlegt er að fjölga hjólreiðastígum sem eru aðskildir göngustígunum ásamt því að bæta tengingar stíganna og þá sérstaklega við nágrannasveitafélögin. Með þessu er öryggi vegfarenda aukið og notkun á stígakerfi bæjarins eykst. Markmiðið er að bæta aðstöðu þeirra sem nota almenningssamgöngur og þétta tíði strætisvagna frá því sem nú er. Það léttir á umferðarþunganum þegar hann er mestur, er umhverfisvænt því það fækkar bifreiðum sem eru í umferð á álagstímum.

Útivistarsvæðin í Kópavoginum eru mörg og mjög falleg. Þar munum við halda áfram að bæta aðstöðu til útiveru með skemmtilegum áningastöðum fyrir fjölskyldur, enn frekari fjölgun bekkja og ruslatunna ásamt því að bæta við göngustígum t.d. við Elliðavatnið. Auðvelda þarf fólki að ganga kringum Elliðavatnið á góðum göngustígum og njóta þeirrar frábæru náttúru sem þar er. Vitræn umhverfisstefna eins og við Sjálfstæðimenn beitum okkur fyrir er fyrir alla, fegrar umhverfið og er ekki síst heilsusamleg.

Hjördís Ýr Johnson
Bæjarfulltrúi
Skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi