Þetta reddast, en dugar það viðhorf?

502

Sjálfsagt velta Kópavogsbúar því stundum fyrir sér hvað skiptir þá mestu máli þegar kemur að málefnum Kópavogsbæjar.  Líklega telja einhverjir að miklu máli skiptir að vel sé staðið að menntamálum í bæjarfélaginu. Góð velferðarþjónusta nefna einhverjir.  Samgöngumál þurfa vera í góðu horfi.  Íþróttamál er einnig málaflokkur sem er ofarlega á lista hjá mörgum.  Lengi mætti telja um mikilvæga málaflokka sem hver og einn vill leggja áherslu á.

Líklega eru ekki margir sem telja að fjárhagsleg staða Kópavogsbæjar sé sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir þá sjálfa.  Góð fjárhagsleg staða Kópavogsbæjar gerir í raun ekki mikið fyrir þá sjálfa.  En er það svo? Skiptir góð fjárhagsleg staða Kópavogsbæjar nokkuð máli?  Sjálfur tel ég afar þýðingarmikið að fjárhagsleg staða Kópavogsbæjar sé sterk.  Líklega er enginn málaflokkur jafn mikilvægur. Góðar hugmyndir til að bæta þjónustu við Kópavogsbúa skipta engu máli ef ekki er til fjármagn til þess að framkvæma þær.  Allir þekkja að af skuldum þarf að greiða vexti og þeim fjármunum sem þannig er varið verður ekki einnig ráðstafað í góðar hugmyndir.

Afkoma Kópavogsbæjar hefur líklega aldrei verið jafn góð og á síðasta ári.  Nýbirtur ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir sl. ár sýnir svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið. Rekstrarafgangur nam 2,2 milljörðum og eigið fé nemur nú 19 milljörðum en heildareignir Kópavogsbæjar eru metnar á 62 milljarða á móti um 43 milljörðum í skuldum. Þessari góðu afkomu er náð þrátt fyrir fjölmörg dæmi þar sem þjónusta hefur verið aukin og ráðist hefur verið í fjárfestingar bæjarbúum til hagsbóta og niðurgreiðslu skulda.

Ekki verður komist hjá því að nefna að helstu eignir bæjarins eru ýmiskonar fasteignir sem nýttar eru í þágu bæjarbúa. Nefna mætti að í samstæðu Kópavogsbæjar er uppgjör Húsnæðisnefndar Kópavogs sem á um 430 íbúðir en þær eru metnar til eignar á 7.054 millj. en fasteignamat þeirra eru hins vegar 12.953 millj.  Líklega er markaðsverð þessara fasteigna miklu hærra en bókfært virði þeirra og sennilega nærri eða umfram fasteignamat þeirra eða sem væri þá um eða yfir 6 milljörðum umfram bókfært virði þeirra.  Annað dæmi mætti nefna að í samstæðu Kópavogsbæjar er einnig uppgjör Fráveitu Kópavogsbæjar og Vatnsveitu Kópavogsbæjar en þar kemur fram að allt veitukerfi bæjarins er metið á 3.991 millj.  Líklega eru þessar eignir síst ofmetnar þar sem kostnaður við að byggja þær upp er sennilega miklu hærri en bókfært virði þeirra.  Ég tel að afkoma sem og efnahagur Kópavogsbæjar sé sterkur.

Vissulega hafa ytri aðstæður verið hagfelldar á undanförnum misserum.  Þegar allt gengur vel er hins vegar fullt tilefni til að vera á varðbergi. Hugarfar um að þetta reddist bara gengur einfaldlega ekki upp.  Því er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið sem felst í niðurgreiðslu skulda og aðhaldi í rekstri til að búa í haginn fyrir sterka fjárhagslega stöðu Kópavogsbæjar.

Jón Finnbogason
Varabæjarfulltrúi
Skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi