Stór verkefni framundan í Kópavogi

719

Þrátt fyrir heimsfaraldur og minnkandi tekjur hjá Kópavogsbæ var tekin sú ákvörðun, við samþykktFjárhagsáætlunar fyrir árið 2021, að halda áfram með þau fjölmörgu verkefni sem í undirbúningi hafa verið hjá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn. Hér mun ég stikla á stóru um það sem framundan er þó yfirlitið sé langt því frá tæmandi.

Kársnesskóli
Á fundi bæjarstjórnar 10. nóvember s.l. var samþykkt heimild til útboðs í opnu útboði bygging Kársnesskóla við Skólagerði. Skólinn verður glæsileg bygging alls 5750fm og mun hýsa bæði leikskóla og grunnskóla fyrir börn á aldrinum eins til níu ára. Bygging skólans verður reist með það fyrir augum að hún nýtist á marga vegu og verði „skólinn sem miðja samfélagsins“. Í skólanum á einnig að vera aðstaða fyrir tómstundastarf og tónlistarnám. Áætlað er að skólinn verði byggður úr timbureiningum og gert er ráð fyrir að hann hljóti umhverfisvottun Svansins. Verkefnið er eitt það umfangsmesta sem Kópavogsbær hefur ráðist í og er áætlaður kostnaður rúmir 4 milljarðar kr. Eldri skólabygging hefur verið rifin og hefur hönnun farið fram í nánu samstarfi við m.a. notendur og skólastjórnendur. Meðan framkvæmdir standa yfir hefur Kársnesskóli fengið lausar kennslustofur á Vallagerðisvöll en gert er ráð fyrir að skólinn verði tilbúinn
til notkunar haustið 2023.

Fjölgun hjúkrunarrýma
Á fundi bæjarstjórnar 24. nóvember s.l. samþykkti bæjarstjórn Kópavogs samning þess efnis að Heilbrigðisráðuneytið og Kópavogsbær standi saman að byggingu hjúkrunarheimilis í Kópavogi. Hjúkrunarheimilið verður reist á lóð Kópavogsbæjar við Boðaþing og í byggingunni verða 64 rými. Heimilið verður tengt við þjónustumiðstöð og byggingu með 44 hjúkrunarrýmum sem fyrir eru á lóðinni. Kópavogsbær greiðir 15% af byggingarkostnaði sem áætlaður er um 3 milljarðar kr. Þá leggur Kópavogsbær til lóð að andvirði um 200 milljónir kr. Miðað er við að verklegar framkvæmdir hefjist í ársbyrjun 2022 og að taka megi heimilið í notkun á fyrri hluta árs 2024.

Uppbygging í Hamraborg
Nú liggja fyrir spennandi skipulagstillögur um uppbyggingu miðbæjarins í Hamraborg. Miðbærinn er einstaklega vel staðsettur á höfuðborgarsvæðinu með eina stærstu skiptistöð Strætó í Hamraborg. Gert verður ráð fyrir blandaðri byggð fyrir íbúðir, verslun og þjónustu. Í skipulaginu er lögð áhersla á göngugötur og mannlífsás, sem er gata fyrir gangandi og hjólandi, sem mun liggja frá menningarhúsunum að Kópavogsskóla. Svæðið er skilgreint sem þéttingarsvæði, en gert er ráð fyrir allt að 550 misstórum íbúðum og áhersla verður á vistvænar samgöngur og breyttar ferðavenjur fólks. Tillagan hefur verið samþykkt í auglýsingu og kynningu en vinnslutillögur höfðu áður verið kynntar. Löngu var kominn tími á uppbyggingu í Hamraborginni sem nú er stefnt að á næstu misserum.

Reiturinn á milli skóla
Það er ekki aðeins að Hamraborgarsvæðið sé að taka stórkostlegum breytingum heldur nær sú endurnýjun upp að MK. Á milli Menntaskólans í Kópavogi og Kópavogsskóla standa í dag 8 íbúðarhús með 12 íbúðum sem byggð eru á árunum 1952-1955. Í samþykktri tillögu í bæjarstjórn 11. nóvember sl. að nýju skipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir að þessi hús víki og að byggðar verði allt að 180 íbúðir í tveggja til fjögurra hæða fjölbýlishúsum með bílakjallara og inndreginni þakhæð. Þá er gert ráð fyrir 200fm atvinnuhúsnæði á jarðhæð við Álftröð. Búaðst má við að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári.

Glaðheimasvæðið
Þegar hefur risið fallegt hverfi í fyrsta áfanga Glaðheimasvæðis þar sem mannlíf er gott og íbúar ánægðir með hverfið sitt. Gerð var könnun í ágúst sl. meðal íbúa um upplifun þeirra af hverfinu þar sem fram kom ánægja með nálægð við þjónustu, lýsingu í hverfinu, útlit og skipulag hverfisins svo nokkuð sé nefnt. Næsti áfangi Glaðheimasvæðis er nú í undirbúningi og var skipulag hverfisins samþykkt í bæjarstjórn 27. október sl. Svæðið er um 8,6 ha að flatarmáli og er hugsað fyrir 270 íbúðir, leikskóla og opið svæði auk verslunar og þjónustu. Gert var ráð fyrir 32 hæða turni í jaðri hverfisins sem lækkaður var í 15 hæðir í lokatillögu. Svæðið verður vel tengt nærliggjandi íbúðabyggð og þjónustusvæðum og hefur alla burði til að
verða eftirsótt og vinsælt hverfi. Lögð verður áhersla á hönnun, útlit og útfærslur húsa og lóða með lýðheilsu og fagurfræði í huga.

Almenningsbókasafn í efri byggðum
Í fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt að setja 200 milljónir kr. í uppbyggingu almennings- bókasafns í efri byggðum Kópavogs. Bókasafn Kópavogs hefur á undangengnum árum þróast á einstaklega skemmtilegan hátt og er nú orðinn vettvangur fyrir bæjarbúa til að hittast, verja tíma með vinum og fjölskyldu og nýta sér fjölbreyttan safnkost. Það er von okkar að hægt verði að byggja upp sambærilega þjónustu í efri hluta Kópavogs. Af ofangreindu má sjá að verkefnin eru stór og spennandi og þá eru ótalin verkefni eins og geðverndarhús í Hressingarhælinu, uppbygging í Bláfjöllum, brúin yfir Fossvog, seinni hluti Arnarnesvegar, endurgerð skóla- og leikskólalóða, innleiðing Barnasáttmála og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sambýli við Fossvogsbrún, uppbygging á íþróttamannvirkjum, lýðheilsuátak eldri borgara og svo mætti lengi telja.

Margrét Friðriksdóttir
forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður menntaráðs

Grein úr 70.árg. VOGA. Hægt er að lesa blaðið í heild HÉR