Stefnufesta er lykillinn

429

Þegar núverandi meirihluti í bæjarstjórn Kópavogs undir forystu Sjálfstæðisflokksins tók við stjórn sveitarfélagsins var staða þess á margan hátt erfið. Kópavogur eins og mörg önnur sveitarfélög voru mjög skuldsett og ljóst að ráðast þurfti í endurskipulagningu á fjármálunum. Það er þó ekki svo að þessar skuldir væru til komnar af óráðsíu, heldur eru þær kostnaður við þá miklu uppbyggingu sem þurft hefur að ráðast í vegna þeirrar fjölgunar sem orðið hefur á síðustu 10 árum. Sú uppbygging mun skila sér á næstu áratugum. Kópavogur hefur verið eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa vaxið hraðast, enda hefur verið haft að leiðarljósi að búa sem best að þeim sem vilja setjast að í þessum fallega bæ sem er svo mörgum kostum búinn. Ekki síst með mikilli nálægð við náttúruna, góðu neti göngu- og hjólreiðastíga og góðu aðgengi að þjónustu, auk öflugs íþróttalífs þar sem fólk á öllum aldri getur fundið sér viðfangsefni.

Vegna þessarar skuldastöðu hefur þurft festu og aga í fjármálastjórninni. Nú tveimur árum síðar hefur tekist með samstilltu átaki bæjarstjórnar undir forystu sjálfstæðismanna og íbúa bæjarins að ná ótrúlegum árangri. Samkvæmt nýjustu áætlunum mun takast að ná skuldum bæjarins niður fyrir lögbundið hámark þegar á árinu 2016. Framundan eru án efa bjartir tímar fyrir okkur íbúa bæjarins. Engu að síður má enginn vera í vafa um að áfram er þörf fyrir ábyrga og trausta forystu. Skuldasöfnun er vandamál sem núverandi kynslóðir velta á þær sem á eftir koma. Það má aldrei verða.

Á næstu árum verður ráðist í margar framkvæmdir sem munu bæta hag bæjarbúa. Þar má nefna að auglýst hefur verið skipulagstillaga að byggingu 300 íbúða fyrir um 700 íbúa við austurhluta Glaðheima og til framtíðar er gert ráð fyrir að um 500 íbúðir muni rísa á svæðinu öllu. Einnig þarf að ráðast í framkvæmdir til að létta umferð af hinum sístækkandi bæ okkar og beina henni á sérhannaðar umferðaræðar eins og á Arnarnesveginn.
Ágætu Kópavogsbúar. Okkur þykir vænt um bæinn okkar og viljum hag hans sem mestan. Við þurfum að búa við festu og öryggi í framtíðinni og nýta hæfileika okkar og tækifæri eftir því sem hverjum hentar. Til þess þurfum við trausta bæjarstjórn. Ég hef mikla reynslu af þeim störfum og býð mig fram til áframhaldandi starfa.

Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar sækist eftir endurkjöri og býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna þann 8. febrúar.