Stefnufesta er lykillinn að lífsgæðum

425

Samvinna stuðlar að velferð
Þann 8. febrúar n.k. halda sjálfstæðismenn í Kópavogi prófkjör sitt fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Kópavogsbær stendur á nokkrum tímamótum um þessar mundir og hefur sjaldan verið mikilvægara að vel takist til þegar frambjóðendur eru valdir á framboðslista. Síðustu ár hafa verið sveitarfélögunum erfið vegna þeirrar stöðu sem verið hefur í efnahagslífi landsins. Kópavogur hefur átt góðu gengi að fagna og hefur vaxið örar en flest önnur sveitarfélög síðasta áratuginn. Því hefur óhjákvæmilega fylgt nokkur skuldasöfnun, bærinn hefur þurft að ráðast í verulegar framkvæmdir til þess að sinna því hlutverki sínu að veita bæjarbúum áframhaldandi góða þjónustu. Þegar best hefur gengið í Kópavogi hefur það jafnan verið undir forystu sjálfstæðismanna. Þegar núverandi meirihluti undir forystu Sjálfstæðisflokksins tók við fyrir tveimur árum var staðan ekki góð en með festu og aga hefur tekist að snúa blaðinu við og getum við nú horft bjartsýn til framtíðar.

Gæði þjónustu
Sveitarfélög eru rekstrareiningar sem veita íbúum sínum margskonar þjónustu. Hún er af mörgum toga og gæði hennar eru líka mismunandi. Til þess að sú þjónusta verði eins góð og hún getur orðið, þarf að hafa skýra framtíðarsýn. Það er líka mikilvægt að íbúar samfélagsins hafi þessa sýn og geti svarað því hvernig þeir vilja sjá bæinn sinn til framtíðar. Gæðunum er dreift misjafnlega og oft ekki úr allt of miklu að spila, það þarf að velja þá leið sem er best út frá fjárhagslegu tilliti og með bestan hag íbúanna að leiðarljósi. Það er því farsælasta leiðin til árangurs að vinna af festu, aga og öryggi í náinni samvinnu við íbúa bæjarins og aðra þá sem máli skipta. Undir stjórn sjálfstæðismanna hefur tekist að veita íbúum Kópavogs það besta sem völ er á í þjónustu sveitarfélaga og því afar mikilvægt að vel takist til við uppstillingu framboðslista sem hefur burði til að halda hinu góða starfi síðustu ára áfram, íbúum Kópavogs til heilla. Það er bæði markmið og skylda okkar sveitarstjórnarmanna.

Öruggar samgöngur
Ein helsta krafa íbúa í hverju sveitarfélagi hlýtur að vera öruggt samfélag. Það sem snýr að bæjaryfirvöldum er meðal annars að skapa öryggi í samgöngumálum. Íbúar bæjarins verða að geta treyst því að þeir komist örugglega leiðar sinnar til og frá vinnu eða námi, til að sinna tómstundum eða öðru sem þeir kjósa að verja tíma sínum í. Ekki á að skipta máli hvort þeir eru akandi, gangandi eða á hjóli. Allir eiga rétt á að búið sé svo um hnútana að ferðamáti þeirra sé hagkvæmur og þægilegur. Íbúarnir eiga líka þá kröfu á bæjaryfirvöld að geta verið öruggir um velferð barnanna í umferðinni, hvort sem þau eru að fara til eða frá skóla, í íþróttaiðkun eða við leik. Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting á ferðamáta fólks og göngu- og hjólreiðastígar hafa fengið aukið vægi í skipulagi umferðar. Vegna þess verður að gæta að því að nægilegt framboð sé á góðum göngu- og hjólreiðastígum sem eru tengdir saman til þess að unnt sé að nýta þá alla leið á áfangastað. Í umferðarátaki FÍB á síðasta ári kom í ljós að víða á höfuðborgarsvæðinu er þörf á úrbótum á þessu sviði. Í framhaldi af þessu óskaði FÍB eftir samstarfi við sveitarfélögin til að treysta og tryggja
umferðaröryggi gangandi vegfaranda. Er sú vinna þegar hafin. Í skýrslunni kemur fram að frágangur gönguleiða yfir akbrautir og merkingar í Kópavogi sé víðast hvar mjög góðar og mun betri en til að mynda í höfuðborginni. Á síðustu tveimur árum hefur verið ráðist í miklar framkvæmdir til að bæta möguleika og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Kópavogi.

Útivist er lykill að lífsgæðum.
Í hverju samfélagi eru ekki bara gerðar kröfur um öryggi og þéttingu byggðar, heldur líka um að íbúarnir geti notið þess frelsis og þeirrar hollustu sem felst í útivist. Í hraða nútíma samfélags er ljóst að útivist er sífellt mikilvægari fyrir heilsuna, bæði þá líkamlegu og andlegu. Í Kópavogi búum við svo vel að náttúran er við fætur okkar og þar er fjöldi góðra og skemmtilegra útivistarsvæða sem búa jafnframt yfir merkri sögu bæði náttúru og mannlífs.

Ágæti Kópavogsbúi
Öll viljum við hag bæjarins okkar sem bestan. Hagur hans verður best tryggður með því að vinna saman af aga og festu að þessu sameiginlega markmiði. Reynslan hefur sýnt að best hefur gengið að feta þann stíg undir forystu sjálfstæðismanna. Framtíð Kópavogs á því mikið undir því að vel takist til að stilla upp traustum lista með fólki sem hefur skýra framtíðarsýn og þann aga, þekkingu og festu sem til þarf.

Ég sækist eftir endurkjöri og býð mig fram í annað sæti framboðslistans og óska eftir stuðningi þínum til áframhaldandi forystustarfa í þágu Sjálfstæðisflokksins. Stuðningur þinn skiptir máli fyrir bæinn okkar en sjaldan eða aldrei hefur verið brýnna að tryggja stöðugleika í bæjarfélaginu.

Stillum upp styrkum lista í Kópavogi með „Ábyrgri forystu, þekkingu og reynslu“ í komandi prófkjöri.

Margrét Björnsdóttir
forseti bæjarstjórnar Kópaogs
formaður umhverfis- og samgöngunefndar

Greinin sem birtist í Morgunblaðinu 01.02.2014 á blaðsíðu 37.