Skemmtilegri sundlaugar í Kópavogi

635

Eitt af því stórkostlegasta við að búa á þessu kalda landi okkar eru sundlaugarnar okkar. Hvernig okkur hefur tekist að nýta heita vatnið úr iðrum jarðar til að hita upp laugarnar og pottana ásamt gufuböðunum er það sem gerir kalda veðráttu bærilega.

Í Kópavogi eru 2 almenningslaugar og síðan er laug í þjónustumiðstöðinni í Boðaþingi. Stærsta sundlaug á Íslandi er  sundlaug Kópavogs, hún er 50 m löng og 25 m á breidd

Salalaug er 25 m á lengd og 15 m á breidd. Að auki eru frábærar innilaugar við þessar laugar báðar sem nýtast vel við sundkennlu. Sundlögin við Boðaþing  hefur verið notuð af fullorðnu fólki í þjónustu Hrafnistu en verður nýtt á næstunni til sundkennslu barna 1. til 4. bekks.

Tekin hefur verið ákvörðun um að skipta um klórkerfi í Salalaug. Með því mun klór til sótthreinsunar verða framleiddur á staðnum úr salti og mun þessi lausn krefjast mun minni klórnotkunar. Þannig munu notendur finna hvernig klórlyktin hverfur og lausnin verða mun heilsusamlegri. Einnig verður samhliða þessu kerfi hætt allri notkun á saltsýru í Salalaug.

Alltof mörg dæmi eru um slys sem hafa orðið við meðhöndlun og flutning á klór þar sem bæði hefur orðið tjón á fólki og náttúru.   Ég fagna mjög þessari ákvörðun sem nú hefur verið tekin og var eitt af mínum fyrstu baráttumálum í þessari bæjarstjórn. Þegar reynsla verður komin á þetta kerfi verður það að sjálfsögðu einnig tekið upp í öðrum laugum í bænum.

Ég hef í nokkurn tíma talað fyrir því að í anddyrum sundlauganna verði sköpuð aðstaða til þess að selja hollar veitingar til gesta og nú er það að verða að veruleika. Einnig mun verða hægt að kaupa sér kaffi og léttar veitingar frá sundlaugunum  og sjálfum finnst mér alveg frábært að geta keypt ís og borðað við laugina í góðu veðri.

Við sjálfstæðisfólk ætlum að gera sundlaugarnar skemmtilegri.  Í Salalaug munum við búa til garð sem verður með nýrri risastórri rennibraut og ýmsum leiktækjum fyrir yngri kynslóðina ásamt því að fjölga heitum og köldum pottum og skapa umgjörð  sem hægt verður að kalla sundlaugagarð.

Sundlaug Kópavogs mun einnig fá upplyftingu, þar hefur verið ákveðið að fara í endurbyggingu á anddyri laugarinnar og koma upp veitingasölu eins og í Salalaug.

Við munum setja upp klifurvegg yfir laugina þannig að þeir sem falla lenda í vatninu og geta einungis upplifað gleðina yfir þvi hve hátt þeir komast og að sjálfsögðu reynt að komast enn hærra næst.

Þá er ætlunin að lengja opnunartíma lauganna og hafa frítt í sund fyrir yngri en 18 ára. Skapa kósi stemmningu á kvöldin með fallegri led lýsingu og auka uppákomur við laugarnar t.d með tónlist eða annarskonar viðburðum.

Kópavogsbær hefur boðið út líkamsræktaraðstöðu í húsarkynnum bæjarins við sundlaugarnar. Nú er það Reebok fitness sem veitir þar þjónustu, verð hjá þeim eru nokkuð hagstæð, árskort með sundi kostar kr. 39.900.-  og  kr. 25.000.- fyrir eldri borgara og öryrkja.

Stefna Kópavogsbæjar í lýðheilsumálum endurspeglast algerlega í  þessum atriðum sem hér hafa verið rakin. Því hvað er raunverulega heilsusamlegra en að skella sér í sund og njóta þar þess unaðar sem vatnið og félagsskapurinn býður uppá?

Guðmundur Gísli Geirdal
Bæjarfulltrúi
Skipar 5. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi