Sjálfstæði og kraftur

456

Sjálfstæðir atvinnurekendur sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki, einstaklingar sem leggja allt sitt undir til að skapa sér og sínum lífsviðurværi, þeir sem koma auga á tækifærin til að framleiða nýja vöru eða bjóða nýja þjónustu, þá á Sjálfstæðiflokkurinn að styðja til dáða. Hvers vegna?  Vegna þess að þar liggur krafturinn til framfara, krafturinn sem skapar jarðveg fyrir ný störf og aukin lífsgæði  Þess vegna þarf að  hlúa að þessum hópi með því að einfalda skattkerfið, lækka skatta og álögur og draga úr flóknu regluverki. Það er nauðsynlegt fyrir þessi fyrirtæki sem önnur að hér að verði stöðugleiki í allri umgjörð fyrirtækja og settar verði skýrar leikreglur til langrar framtíðar.

Þá munu litlu og meðalstóru fyrirtæki sjálfstæðu atvinnurekandanna verða í stakk búin til að fjárfesta frekar, ráða til sín fleiri starfsmenn, borga þeim betri laun og veita þeim tækifæri til að  taka þátt í og njóta velmegunar. Samhliða munu tekjur ríkissjóðs aukast vegna þess að fleiri fá vinnu, borga skatta og þeim fækkar sem þurfa að vera á atvinnuleysisbótum. Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum liggja tækifærin, þau þarf að nýta og Sjálfstæðisflokkurinn mun stuðla að því.

Verkefnin framundan

Það er flestum ljóst að verkefnin framundan eru mörg og viðamikil en áherslu verður að leggja á lækkun skulda ríkissjóðs, fram hjá því getur enginn stjórnmálaflokkur litið. Við verðum að mynda samstöðu og hafa skýra sýn á nýjar leiðir í efnahagsmálum þar sem megin áhersla verður á stöðugleika og vöxt.

Við þurfum að setja okkur sameiginlega markmið um að loka fjárlagagatinu, að bæta umhverfi atvinnulífsins, skapa því umhverfi sem leiðir af sér kjarabætur til launaþega, kjarabætur sem haldast í hendur við verðmætasköpun í landinu þannig munum við komast áfram.

Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og menntunar og forsenda þess að við getum tekið á fjárhags – og lánavanda heimila í landinu. Við vitum  mæta vel að hagur heimilanna byggir á atvinnu og öryggi, hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lánin og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að taka þátt í þeirri vegferð með fólkinu í landinu.

Leiðir að markmiðum

Það eru ýmsar leiðir til þess að ná framan greindum markmiðum  en ég vil búa í samfélagi þar sem einstaklingnum er treyst og honum tryggt frelsi til athafna.  Ég vil búa í samfélagi þar sem atvinnulífinu eru skapaðar aðstæður til að eflast  og þar sem fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins.  Þess vegna er það er bjargföst skoðun mín að grunngildi sjálfstæðisstefnunnar eigi nú sem aldrei fyrr brýnt erindi við fólkið í landinu. Ef þú ert mér sammála þá átt þú samleið með Sjálfstæðisflokknum í kosningunum þann 27. apríl næstkomandi.

 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.