Náum sáttum á ný!

473

Árið 2006 voru Íslendingar orðnir ein ríkasta þjóðin í Evrópu og ofarlega á lista yfir auðugustu þjóðir heims.   Þetta var gríðarlegt afrek hjá þjóð sem var ein sú fátækasta í Evrópu fyrir aðeins rúmum 100 árum.  Svo sló í bakseglin.  Við Íslendingar sem höfðu sloppið afar vel frá báðum heimstyrjöldunum, fengu stærri skell en flestir aðrir í hruninu.  Eins og fram kemur í nýlegri ákæru sérstaks saksóknara þá voru hér framin skipulögð svik gagnvart samfélaginu öllu, af mönnum sem nú sæta ákærum. Og mörgum fleirum finnst þeir eiga sök. Ég spyr mig til dæmis oft; ,,hvar ég sem fréttastjóri Sjónvarpsins og mitt lið árin fyrir hrun.  Hvers vegna sögðu við ekki fólki fréttir af því var að gerast og vöruðum það við?“.

Ég tel að þjóðin hafa ekki bara orðið fyrir efnahagslegu áfalli í hruninu heldur einnig andlegu áfalli, eins og þegar menn verða fyrir þungbærri lífsreynslu. Annað væri í raun óeðlilegt, slíkt var áfallið.  Í kjölfar slíkra áfalla fylgir svokölluð áfallastreituröskun, sem læknavísindin taka nú ríkt tillit til, en helstu einkenni hennar eru hjálparleysi, ótti og langvarandi reiði.

En nú verður reiðin að víkja.  Staðan í þjóðfélaginu er þannig tæpum fimm árum eftir hrun að við verðum að bregðast rétt við og blása til sóknar.  Á Íslandi er hagvöxtur lítill, skattheimta hefur aukist gríðarlega, halli ríkissjóðs er mikill og viðvarandi með tilheyrandi vaxtakostnaði, atvinnulífið er ekki í vexti, laun eru lág og það ríkir atvinnuleysi og fólksflótti.  Grunnstoðir velferðarkerfsins hafa veikst mikið. Ég tel það því algera nauðsyn að við breytum um efnahagsstefnu, og við megum engan tíma missa. Við verðum að koma atvinnulífinu aftur í gang  með því að lækka skatta, nýta orkuauðlindir okkar betur, hlúa að nýsköpun og nýjum tækifærum eins og í tengslum við opnun norðurísahafssiglingaleiðarinnar með kröftugum hætti.

Einnig verðum við að bæta hag skuldsettra heimila. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að gera það er spurt.  Aðferðin okkar  er raunhæf og hægt að standa við hana 100 prósent.  Það síðasta sem við viljum sjá er vonsvikin þjóð á næsta kjörtímabili ef loforð reynast óraunhæf.  Á næstu fimm árum ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að láta öllum þeim í té sem eru með íbúðalán 40 þúsund króna skattaafslátt á mánuði sem rennur beint til lækkunar höfuðstóls lánsins.  Auk þess gefst fólki kostur á að nýta sér viðbótarlífeyrissparnað sinn skattfrjálst til að borga inn á höfuðstólinn, sem er góð fjárfesting.   Þetta getur skilað sér í allt að 20 prósenta lækkun höfuðstólsins á 5 árum, með tilheyrandi minni greiðslubyrði. Þetta gildir fyrir alla með íbúðalán. Þetta ásamt skattalækkum eru  aðgerðir sem fólk mun finna fyrir í buddunni strax.

Við viljum fá aftur okkar öfluga velferðarkerfi. Ég er oft spurð: ,,En ágæta Elín.  Hvernig í ósköpunum ætlar þú að efla velferðarkerfið með því að lækka skatta?  Svar mitt er:  ,,Með því að lækka skatta verður ríkissjóður fyrir tímabundnu tekjutapi en síðan munu skattalækkanirnir skila sér í stórauknum skatttekjum.  Það gerist þegar fólk og fyrirtæki fá meira svigrúm, atvinnulífið kemst í gang á ný, skattstofninn stækkar og skatttekjur aukast.  Síðan er að setja heilbrigði- og menntun í algeran forgang, en ekki eyða opinberu fé í verkefni sem við höfum ekki efni á.

Kæru landsmenn.  Náum sáttum á ný!

Elín Hirst

Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) fyrir Alþingiskosingarnar 27. apríl nk.