Miðbærinn okkar!

576

Hamraborgin hefur staðið í núverandi mynd nær óbreytt frá 1985. Fá svæði hafa komið jafn oft upp í samræðum mínum við bæjarbúa en Hamraborgin og sitt sýnist hverjum. Einhverjir hafa nefnt að svæðið hafi aldrei náð að verða sá miðbær sem vonir stóðu til um og einn gamalgróinn Kópavogsbúi gekk svo langt að segja að eina vitið væri að koma með gröfu og jafna allt svæðið við jörðu svo hægt væri að hanna það upp á nýtt. En Hamraborgin á sér skemmtilega sögu og heilmikil vinna var lögð í hönnun svæðisins á sínum tíma. Skoðunarferðir voru farnar m.a. til Skotlands og Danmerkur til að fræðast um mismunandi tegundir bæjarkjarna og fyrstu ár Hamraborgarinnar voru mjög blómleg. En þarfir fólks breytast og nú eru flestir sammála um að breytinga sé þörf og á síðasta fundi bæjarstjórnar, þriðjudaginn 27. október, var samþykkt setja í kynningu tillögu að breyttu deiliskipulagi á Hamraborgarsvæðinu.

Verkefnalýsing verður tillaga
Það er gríðarleg vinna á bak við tillögu sem þessa, enda með stærri verkefnum sem Kópavogsbær hefur ráðist í. Allra fyrst var búin til verkefnalýsing þar sem farið var yfir verkefnið, efnisþætti, tímalínu og samráðsferli. Verkefnalýsingin var kynnt m.a. í blöðum, heimasíðu bæjarins og einnig var haldið opið hús. Samráðsfundir með fyrirtækjum á svæðinu voru haldnir í samstarfi við Markaðsstofu Kópavogs. Eftir verkefnalýsinguna tók vinnsluferlið við. Þá varð til vinnslutillaga I eða drög að skipulagi sem var kynnt í blöðum, á heimasíðu bæjarins, á samráðsfundum auk funda með m.a. fulltrúum húsfélaga. Vinnslutillögu I var breytt í takt við athugasemdir og ábendingar sem komu frá hagsmunaaðilum og til varð vinnslutillaga II. Hún var þá einnig kynnt í blöðum, á heimasíða bæjarins, samráðsfundum og á opnu húsi. Unnið var úr athugasemdum og ábendingum sem bárust og að lokumvarð til tillagan sjálf sem nú er að fara í kynningu.

Hverjar eru áherslurnar?
Markmiðið er að efla hlutverk Hamraborgar sem hjarta Kópavogs með tilliti til sérstöðu miðsvæðisins sem miðstöð menningar, stjórnsýslu og bæjarkjarna. Hönnunin tekur mið að aðliggjandi byggðarformum og þörfum íbúa og það má með sanni segja að vel hafi tekist að blanda saman gömlu og nýju. Áhersla er lögð á vistvænar samgöngur með grænum mannlífsás í formi fallegrar göngugötu sem nær alla leið frá Menntaskólanum að Hálsatorgi. Góðir göngu- og hjólastígar verða um allt svæðið, stæði fyrir rafhjól og bílastæði verða undir yfirborðinu. Þar sem töluverður hæðamunur er á svæðinu verður lyfta utandyra ásamt fallegum tröppum og hjólarampi til að tryggja gott aðgengi á milli hæða.

Fleiri útivistasvæði.
Við breytinguna fjölgar útivistar- og torgsvæðum um helming eða úr fjórum í átta. Sólartorgið nýja og göngugatan með verslunum á jarðhæð munu klárlega setja skemmtilegan svip á svæðið og laða gangandi og hjólandi að. Að auki mun Geislagarðurinn, sem ekki er mikið notaður í dag, verða mun aðgengilegri þar sem íbúar geta notið útiveru í góðu skjóli.

Skjólgóð svæði
Við hönnun var vel hugað að sól og vindi með ítarlegum skuggavarps- og vindgreiningum. Hæðir á húsum verða inndregnar svo skuggi varpast á húsin í stað götunnar. Þannig er búið að að tryggja sólríka og skjólsæla staði bæði við göngugötu og torg þar sem hægt verður að sitja úti við kaffi- og veitingahús og njóta sólardaganna…þegar þeir láta loks sjá sig.

Öflugar almenningssamgöngur
Hamraborgin er nú þegar þriðja stærsta stoppistöð Strætó og mun eflast enn frekar þegar Borgarlínan verður tekin í gagnið. Þá verður hún stærsta skiptistöð Borgarlínunnar og sú eina með tveimur línum sem fara þar um. Þessi samgöngutenging ásamt þeim íbúðum sem þarna munu rísa, ýta undir mannlífið sem nauðsynlegt er til að gera svæðið blómlegt. Það þarf nefnilega fólk til að skapa mannlíf og miðbæ.
Það er óhætt að segja að fram undar eru spennandi tímar fyrir miðbæinn okkar og vonandi, innan fárra ára, getum við sagt: “Eigum við að fara í bæinn?” og þá erum við á leið í Hamraborgina, miðbæinn okkar í Kópavogi.

Hjördís Ýr Johnson
Bæjarfulltrúi og varaformaður Skipulagsráðs