Menntun til framtíðar

459

Grunnskólar Kópavogs í fremstu röð í snjalltækni

Við lifum á tímum þar sem miklar tækniframfærir eiga sér stað og nú er talað um fjórðu iðnbyltinguna. Þar er vísað til þeirra tækniframfara sem eru að eiga sér stað með bættri afkastagetu tölva t.d. í formi gervigreindar og sýndarveruleika. Mikil þörf er á að efla og breyta áherslum í menntun samhliða þessum öru tæknibreytingum.

Sjálfstæðismenn í Kópavogi gera sér grein fyrir þessari hröðu þróun og leggja áherslu á að grunnskólar Kópavogs verði í fremstu röð með að nýta upplýsingatækni í daglegu starfi nemenda og kennara. Við erum að mennta unga fólkið okkar til framtíðar og þurfum að hafa það í huga að stór hluti nemenda í grunnskólum nú, munu fara í störf sem ekki eru til í dag og ekki skilgreind. Við megum því engan tíma missa þegar kemur að skólaþróun á sviði upplýsingatækninnar.

Á síðasta kjörtímabili var stigið það stóra skref að allir nemendur í 5.-10. bekk fengu spjaldtölvu til afnota í skólastarfi og utan þess. Á þeim þremur árum sem verkefnið hefur verið í gangi í grunnskólum Kópavogs hafa þegar átt sér stað ótrúlegar breytingar á kennsluháttum og fjölbreytileika í námi. Á uppskeruhátíð spjaldtölvuverkefnisins sem haldin var í Salnum 12. apríl sl. mátti sjá fjölmörg ný verkefni sem nemendur kynntu sem afrakstur síðasta skólaárs.

Hér verður ekki staðar numið enda mikilvægt að halda áfram á þessari braut og nýta alla þá möguleika sem spjaldtölvan gefur. Lögð verður áhersla á að allir grunnskólanemar í Kópavogi hafi aðgang að spjaldtölvu í skólanum. Yngstu börnin hafi þó sína tölvu aðeins í skólastofunni og í tilteknum verkefnum undir stjórn kennara.

Þá verði nýttar þær viðbótar tækninýjungar og búnaður sem til boða stendur svo sem tölvulíkön sem birta sýndarveruleika með sérstökum gleraugum og búnaði. Þannig er hægt að skapa námsumhverfi sem gerir nemendum kleift að fara í vettvangsferðir á staði sem þeir komast ekki ella á s.s. að kanna hafdjúpin eða framandi lönd. Þá er gervigreind eitthvað sem okkar framtíðarumhverfi mun sífellt meira taka í notkun með tölvustýrðum vélmennum en nemendur í Kópavogi eru þegar byrjaðir að spreyta sig á forritun þeirra.

Tækninni mun bara fleygja áfram og við Sjálfstæðismenn í Kópavogi viljum leggja okkar af mörkum til að skólar bæjarins séu í fremstu röð þegar kemur að notkun á upplýsingatækni í skólastarfi með því að tryggja öllum grunnskólanemum aðgengi að spjaldtölvum og þeim viðbótar tæknibúnaði sem nauðsynlegur er til að halda grunnskólanemum í Kópavogi í fremstu röð í snjalltækni. Við viljum að í Kópavogi séu reknir skólar 21. aldar.

Margrét Friðriksdóttir
Skólameistari MK
Skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi