„Meirihlutinn hefur nálgast stjórn á fjármálum bæjarins með ábyrgum hætti“

428

–segir Andri Steinn Hilmarsson sem er í 8. sæti.

Fyrstu ár ævi minnar bjó ég í Vestmannaeyjum þar sem pabbi var að vinna hjá Sýslumannsembættinu. Eftir um tvö ár flytur fjölskyldan í Kópavog þar sem ég hef búið síðan í foreldrahúsum. Fyrstu minningar mínar eru því úr Kópavogi. Ég er tvítugur og stunda nám í Fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Þetta var eðlilegt skref þar sem ég hafði mikinn áhuga á verkfræði og mér sögðu félagar mínir í stjórn Týs, félag ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem höfðu útskrifast með þessa gráðu, að þetta væri mjög áhugavert nám, en ekki síður að atvinnumöguleikar eru nokkuð góðir,“ segir Andri Steinn Hilmarsson, formaður Týs sem skipar 8. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Andri Steinn á kærustu, en þau búa bæði í foreldrahúsum. Andri Steinn segir að það lýsi nokkuð húsnæðismarkaðnum í dag að það teljist til undantekninga ef jafnaldrar hans séu fluttir í eigið húsnæði eða leiguhúsnæði og séu ekki enn í foreldrahúsum. Andri segir pólitíkina vera eitt helsta áhugamál hans í dag en auk þess fer hann líka í fótbolta einu sinni í viku í Kórnum með félögunum. Hann segir að stjórnmálaáhuga sinn hafi hann ekki drukkið í sig við eldhúsborðið heima en sú afdráttarlausa stefna og stuðningur Sjálfstæðisflokksins við einstaklingsfrelsi hafa strax hrifið hann, og svo auðvitað sjálf sjálfstæðisstefnan. Andri segir að auk þess sé Sjálfstæðisflokkurinn eini stjórnmálaflokkurinn sem hafi trú á einstaklingnum.

Ég er mikill skákáhugamaður og hef verið að keppa svolítið þegar það truflar ekki námið. Ég tefldi þegar ég var í grunnskóla og var Lindarskólameistari nokkur ár í röð. Þetta er afar skemmtileg en jafnframt krefjandi íþrótt. Það er nauðsynlegt að vera með sterka ungliðahreyfingu í Sjálfstæðisflokknum sem getur tekið við ungu fólki sem aðhyllist stefnu Sjálfstæðisflokksins en vill frekar starfa með fólki á þeirra aldri. Það var gert átak fyrir nokkru í að efla starfið og við það hefur fjölgað verulega í Tý, en skráðir félagar eru í dag um 1.000 talsins.

Skipulagsmál spennandi málaflokkur
Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogsbæjar hefur verið að nálgast alla málaflokka með mjög ábyrgum hætti, ekki síst hvað varðar stjórn á fjárhag bæjarins. Það er ekki hægt að safna skuldum, þar þurfum við að hugsa til framtíðarinnar, það mundi ég vilja hafa að leiðarljósi við stjórn bæjarins til framtíðar, ekki bara á næsta kjörtímabili. Ég mundi vilja hafa áhrif í skipulagsmálum og er um margt sáttur í dag þar. Það er verið að þétta byggðina sem er gott og eins að það eigi að byggja vestast á Kársnesinu, það er löngu tímabært að úthluta þar byggingalóðum. Svo styð ég byggingu göngubrúar yfir Fossvoginn og þar með eru íbúar á Kársnesi komnir í göngufæri við miðbæ höfuðborgarinnar. Þá verður Kársnesið mun verðmætari og mikilvægari byggingareitur. En ég tel, eins og margt annað ungt fólk, að ástandið í húsnæðismálum sé ekki ásættanlegt, hvort sem þú vilt eignast húsnæði eða leigja. Það þarf að breyta byggingareglugerðinni og um það þarf að ríkja þverpólitísk samstaða. Húsnæði er almennt of dýrt og lánamál í slæmum farvegi. Líklega skortir ungu fólki skorinortann og ákveðinn málsvara sem hvetur það til að láta til sín taka, láta sína rödd heyrast vafningalaust, segir Andri Steinn Hilmarsson sem segir mjög gaman að taka þátt í starfi á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Það sé mjög breiður listi þegar horft er til skipan hans og starfa þeirra sem eru á honum, þar er m.a. sjómaður, skólameistari, lögmaður, kynningarstjóri og svo auðvitað bæjarstjóri.