Kópavogsbúar segja nei takk við samgönguáætlun

481

Ný samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar er vonbrigði fyrir Kópavogsbúa. Þar er framkvæmdum við síðasta áfanga Arnarnesvegar frestað, kaflanum frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessari framkvæmd er frestað, en hún var inni á áætlun fyrir árin 2019-2022 eftir að hafa verið ýtt aftast í samgönguáætlun áranna 2011-2022. Af hverju að eyða tíma og peningum í að gera og skrifa áætlanir þegar þeim er breytt eftir hentisemi?

Kópavogsbúar hafa sýnt biðlund þrátt fyrir mikla þörf á þessari nýju vegtengingu. Um 12 þúsund bílar fara í gegnum Vatnsendahverfi á sólarhring og eru gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendavegar löngu sprungin. Efri byggðir Kópavogs eru ekki innan viðbragðstíma hjá slökkviliði og sjúkarflutningum á höfuðborgarsvæðinu og miklar umferðartafir eru inn í hverfi á háannatímum. Þessi framkvæmd getur ekki mætt afgangi enn eitt kjörtímabilið.

Á síðustu tíu árum hefur aðeins 16 prósent af öllu nýframkvæmdafé vegasamgangna farið til höfuðborgarsvæðisins, þar sem 70 prósent íbúa landsins búa, og er ástandið í samgöngumálum farið að skerða lífsgæði fólks á suðvesturhorninu nokkuð. Fólk eyðir lengri tíma í og úr vinnu sem mætti miklu frekar nota með fjölskyldu eða í áhugamál.

Ég skora á samgönguráðherra að standa við gefin loforð til Kópavogsbúa og ljúka við Arnarnesveg á kjörtímabilinu og að lögð verði fram sjálfstæð samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar.

Höfundur er formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs.