Íþróttastarf í fyrsta gír

792

Þær aðstæður sem nú eru uppi í tengslum við Covid-19 hafa haft umtalsverð áhrif á allt íþróttastarf. Við höfum öll orðið vör við það. Í Kópavogi fer alla jafna fram mjög umfangsmikið starf í fjölmörgum mismunandi íþróttafélögum. Við finnum fyrir því að daglegt líf okkar hefur tekið miklum breytingum. Æfingar og kappleikir hafa fallið niður. Sundlaugar hafa verið lokaðar og einnig líkamsræktarstöðvar. Vissulega hafa einhverjar tilslakanir verið samþykktar núna á síðustu vikum en þó er enn langt í land í að starfið fari fram með hefðbundnum hætti. Við þekkjum öll þessa stöðu því við upplifum hana á hverjum degi.

Málefni íþróttafélaganna er að sjálfsögðu rædd með ítarlegum hætti á vettvangi þeirra sjálfra. Í stjórnum þeirra sem og mismunandi deildarstjórnum í fjölgreinafélögunum. Í Kópavogi erum við með félag sem heitir Samstarfsvettvangur Íþróttafélaga í Kópavogi og gengur undir heitinu SÍK en í félaginu eru öll stærstu íþróttafélög Kópavogs, þ.e.a.s. Breiðablik, HK og Gerpla, Gólfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar o.fl. o.fl. Eysteinn P. Lárusson er formaður SÍK en hann er einnig framkvæmdastjóri Breiðabliks. Sjálfur sit ég í stjórn SÍK. Á stjórnarfundum SÍK hefur staðan verið til umfjöllunar. Þá hefur staðan einnig verið rædd í íþróttaráði Kópavogsbæjar sem og í Bæjarráði og Bæjarstjórn.

Á fundi íþróttaráðs í nóvember þá var lagt fram minnisblað frá SÍK og mætti Eysteinn P. Lárusson á fund íþróttaráðs og fór hann yfir minnisblaðið. Var minnisblaðinu ætlað að draga saman stöðu aðildarfélaga SÍK á þessum fordæmalausu tímum í Covid 19 faraldrinum. Haft var samband við félög innan SÍK sem lýstu þeim áskorunum sem félögin glíma við. Það er viðeigandi á vettvangi Voga að fara yfir helstu þætti sem minnisblað SÍK dregur fram um stöðu íþróttamála í Kópavogsbæ á þessum fordæmalausu tímum.

Lýsing á því að allar æfingar hafi legið niðri og að mannvirkin hafi staðið tóm stóran hluta af árinu eru lýsing sem enginn okkar átti von á í upphafi árs. Við þekkjum öll vel að venjulega eru íþróttamannvirki Kópavogsbæjar stútfull af iðkendum. Aðildarfélög SÍK hafa reynt eftir fremsta megni að sinna þjónustu með rafrænum hætti í formi heimaæfinga, fyrirlestra o.s.frv. Þá var einnig nefnt að sum félög hafi brugðið á það ráð að hringja í sína iðkendur og hvetja þá áfram sem mæltist mjög vel fyrir hjá foreldrum og forráðamönnum.

Viðburðir og mótahald hefur þurft að fella niður í stórum stíl á árinu eða þeir haldnir með mjög takmörkuðum hætti þegar takmarkanir leyfðu slíkt. Hefur það leitt til þess að félögin hafa orðið fyrir miklu tekjutapi. Íþróttafélögin í Kópavogsbæ eru með mismiklar fjárhagsskuldbindingar vegna rekstrar. Dæmi er um að félögin hafa nýtt sér þau úrræði sem í boði hafa verið en þau úrræði hafa ekki alltaf nýst íþróttafélögunum sem skildi. Þó hafa stjórnvöld nýlega komið með nýtt úrræði sem vonir standa við að muni gagnast. Í minnisblaðinu var tekið fram að fjárhagsstaðan heilt yfir væri ágæt en mikið kapp var strax lagt í að draga úr kostnaði. Það blasi þó við að ef ástandið varir mikið lengur þá sé ljóst að róðurinn mun þyngjast verulega.

Því er lýst að félögin hafi mætt miklum skilningur hjá iðkendum, foreldrum eða forráðamönnum. Það séu þó allir orðnir spenntir fyrir því að starf félaganna fái að komast úr fyrsta gírnum og taka af stað á ný. Þannig viljum við hafa það. Blómlegt íþróttastarf. En fullur skilningur er hins vegar á að því að takmarkanir sem þessar eru settar á vegna þess að brýn nauðsyn krefst þess. Þá kom einnig fram að félögin óttast að hluti iðkenda skili sér ekki til baka þegar takmörkunum verði aflétt. Aukið brottfall eru því áhyggjuefni. Fylgst verður vel með þeirri þróun. Við vonumst öll til þess að senn takist okkur að komast yfir þær áskoranir sem Covid hefur fært okkur. Öll söknum við þess að geta fært líf okkar yfir í hefðbundinn farveg. Þar leikur íþróttastarf lykilhlutverk og verður því gaman þegar það getur hafist aftur með hefðbundnu sniði.

Jón Finnbogason,
formaður íþróttaráðs og fyrsti varabæjarfulltrúi