Hjúkrunarrými og Boðaþing

603

Þjóðin er að eldast eins og sjá má á spá Hagstofunnar. Helstu breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar verða að árið 2035 verða 20% mann-fjöldans eldri en 65 ára og árið 2055 yfir 25%. Enn fremur verða þeir sem eru eldri en 65 ára fleiri en þeir sem eru 19 ára og yngri frá árinu 2046 þvert á fyrri mannfjöldaþróanir á Íslandi. Þetta merkir færri vinnandi hendur til að standa undir rekstri ríkis og sveitafélaga m.a. í velferðarmálum.  

Félagsþjónusta aldraðra.

Félagsleg aðstoð og þjónusta er veitt af sveitarfélögum og eiga aldraðir rétt á  þeirri  þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita samkvæmt lögum  um félagsþjónustu. Þá eru þjónustumiðstöðvar aldraðra einnig starfræktar  af  sveitarfélögum þær eiga að tryggja eldri borgurum félagsskap,  næringu, hreyfingu, tómstundaiðju og eftirlit með heilsu. Þjónustan er stuðningsþjónusta, svo sem heimaþjónusta og heimsending matar, akstursþjónusta, dagdvalarþjónusta ásamt leigu- og þjónustuíbúðum. Þá  niðurgreiða mörg sveitarfélög að hluta eða að fullu almenna þjónustu til aldraðra að sundi, strætó og lista-og bókasöfnum.

Dagdvöl aldraðra.

Dagdvöl aldraðra og heimahjúkrun er stuðningsúrræði við þá sem að  staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima utan stofnanna sem er yfirlýst stefna stjórnvalda og má finna í lögum um aldraða og félagsþjónstu. Í dagdvöl aldraðra er veitt hjúkrunarþjónusta til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið er upp á akstursþjónustu, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundir, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. 

Uppbygging hjúkrunarheimila.

Óvíst er hversu háu hlutfalli af landsframleiðslu er varið til  félagslegrar aðstoðar eldri borgara en ljóst er að stór hluti þess kostnaðar fellur á sveitafélögin en einnig er umræða um að daggjöld hjúkrunarheimla standi ekki undir rekstri heimilanna.

Það er mikilvægt að markviss uppbygging hjúkrunarheimila eigi sér stað. Dvalartími einstaklinga sem komast á hjúkrunarheimili er ekki langur þar sem að vegið meðaltal dvalartíma er 2,6 ár og árið 2020 eru 408 á biðlista eftir hjúkrunarrými. Þar sem að öldruðum fjölgar mikið á næstu árum verður það til þess að biðlistar hjúkrunarheimila munu áfram lengjast ásamt því að kostnaður og þörf við aukna heimaþjónustu eykst hjá sveitafélögum jafnt og þétt. Þessu þarf að mæta á einhvern hátt. Það er samhljómur í þjóðfélaginu að búa öldruðum öruggt og gott ævikvöld. Til þess að svo megi vera þarf samhent átak sveitafélaga og ríkis í uppbyggingu dagdvalar- og hjúkrunarrýma. Með fjölgun aldraða og fækkun yngra fólks þyngist hins vegar slíkur róður töluvert og þarf íslenskt samfélag mikið til að reiða sig á erlent vinnuafl, fjölgun barneigna og auknar þjóðartekjur til þess að standa undir velferðarkerfinu.

Þeir sem hafa gleymst, gráu svæðin.

Ákveðin hópur sem þarfnast þjónustu og er á svokölluðum gráum svæðum, það er bæði á ábyrgð ríkis og sveitafélaga. Það er fólk yngra en 67 ára sem hefur langvinna sjúkdóma eða hefur farið mjög illa í slysum og getur ekki búið heima. Þetta eru einstaklingar sem þurfa sólarhringsaðhlynningu og hafa nú engan annan kost en að bíða eftir hjúkrunarrýmum með sér mun eldra fólki sem samkvæmt meðaldvalartíma dvelur þar aðeins í skamman tíma. Slíkt dæmi sást nýlega í fréttum af konu með MS sjúkdóminn sem lendir á milli skips og bryggju í sínum málum og á hvergi heima og bíður eftir hjúkrunarrými.

Tækifæri vegna,  „grárra svæða“  í Boðaþingi.

Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða, enda er þjóðin að eldast og biðlistinn er langur. En það eru ekki aðeins aldraðir sem fá þjónustu á hjúkrunarrýmum því í lok sl. árs dvöldu 139 einstaklingar yngri en 67 ára í þessum hjúkrunarrýmum sem ætluð eru fyrir aldraða. Þetta eru einstaklingar sem oftast dvelja þar til lengri tíma sökum veikinda eða slysa og eru í þörf fyrir umfangsmikla þjónustu og oft sérhæfða. Maður spyr sig; er það sanngjarnt að búa þessu fólki aðstæður þar sem aldraðir búa og oftast innan við tvö ár? Svarið hlýtur að vera nei. Huga þarf að öðrum þáttum fyrir þessa einstaklinga, ekki síst félagslegum þáttum. Fyrir liggur að fjölga hjúkrunarrýmum í Boðaþingi í Kópavogi. Hér gefast tækifæri á að huga sérstaklega að þessum einstaklingum og þeirra þörfum og viðhorfum. Ef til kæmi yrði uppbygging á hjúkrunarrýmum í þessum tilgangi sérstakur hluti byggingarinnar þar sem megin áhersla yrði á stærri einkarými, heimilislegan brag og möguleika á sérhæfðri þjónustu til að koma til móts við þær þarfir sem til staðar eru. Með þessu mundi skapast valmöguleiki fyrir einstaklinga til að búa sér heimili og taka þátt í hversdagsleikanum eins og nokkur kostur er. En slík uppbygging er háð samþykki ríkisins og það er von mín að svo verði þannig að slík uppbygging yrði bæði ríki og sveitarfélaginu til sóma.

Ég vil hvetja báða ráðherra Velferðarmála að kanna þennan möguleika vel nú þegar verkefni hjúkrunarheimilis í Boðaþingi er komið í áætlunargerð Framkvæmdasýslu ríksins.  

 

Karen Elísabet Halldórsdóttir
Bæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins