Hættuleg ráðagerð

433

,,Það er ekki til neitt sem heitir einkafjárfesting í Kína. Allir þessir svokölluðu kínversku fasteignajöfrar sem fjárfesta á erlendri grundu eru háttsettir núverandi eða fyrrverandi embættismenn í kínverska kommúnistaflokknum. Hvert eitt og einasta þessara fjárfestingafyrirtækja er með deild eða sellu í kínverska kommúnistaflokknum á bak við sig. Kínverska ríkisstjórnin getur yfirtekið þessi fyrirtæki hvenær sem er.“ Þetta segir Miles Yu umsjónarmaður fréttaskýringardálksins Inside China hjá dagblaðinu The Washington Times.

Ég hef átt í tölvupóstsamskiptum við Miles Yu undanfarna daga vegna þekkingar hans á innviðum kínversks samfélags, nokkuð sem hefur mjög skort á í umræðunni um fjárfestinn Huang Nupo og fyrirætlanir hans hér á landi. Ég bað Miles Yu um að upplýsa mig í því skyni að ég mætti birta orð hans í grein í íslenskum fjölmiðlum. Ástæðan er sú að ég hef áhyggjur af því hvert þetta mikilvæga mál er að stefna, því ráðherrar innan ríkisstjórnar Íslands virðast vera fylgjandi fyrirætlunum Nupos, svo ekki sé talað um sveitastjórnarmennina. Tekið skal fram að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur þó verið afar skýr og afdráttarlaus í andstöðu sinni við þetta mál. Það sem vakti sérstaklega athygli mína voru orð sem höfð voru eftir Huang Nupo í dálki Miles Yu Inside China í janúar en birtust fyrst í íslenskum fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum. Þar talar hann niðrandi um Íslendinga og kallar þá ,,sjúka“ og ,,veikgeðja“: eða eins og haft er eftir Nupo í The Washington Times: “The Icelanders are sick and they are weak,” he said. “They feel scared of the presence of a strong young man.”

Nupo er flokksgæðingur

Í áðurnefndri fréttaskýringu í The Washington Times er einnig fjallað um tengsl Nupos við háttsetta valdamenn í kínverska kommúnistaflokknum og þá spillingu sem ríkir í flokknum á öllum stigum. Flokkurinn ráði því algerlega hverjir fá aðgang að peningum og viðskiptatækifærum, en það séu að langmestu leyti flokksgæðingar. Sjálfur segir Nupo í greininni vera stoltur af því að vera félagi í kínverska kommúnistaflokknum.

Að sögn blaðamannsins Miles Yu er allt sem kínversk yfirvöld gera hugsað til langs tíma, áratugi fram í tímann, og afar vel ígrundað. Þeir ætli sér að komast til áhrifa á Norðurheimskautssvæðinu, bæði vegna auðlinda sem þar er að finna en einnig vegna þess að ný siglingaleið sem senn opnist um heimskautið styttir vegalengdir frá Kína til Evrópu um þúsundir kílómetra.

,,Langtímaleiga á íslensku stórjörðinni Grímstöðum á Fjöllum til Huang Nupos mun heldur ekki geta hindrað það að kínverjar eignist landið þegar fram líða stundir. Ímyndaðu þér kínverskan stjórnarerindreka sem vinnur á þessari landareign í 10 til 15 ár, fær síðan íslenskan ríkisborgararétt og getur keypt landið samkvæmt íslenskum lögum, sem leppur kínverskra stjórnvalda“, segir Miles Yu.

,,Kínverjar eru að gera nákvæmlega þetta sama í Úkraínu. Þarlend stjórnvöld hafa leigt þeim stór landsvæði í tengslum við sameiginlegar fjárfestingar ásamt kínverskum fjárfestum, sem eru allar á vegum Kínverskra stjórnvalda. Og viti menn á næsta ári er gert ráð fyrir því að yfirvöld í Úkraínu leyfi Kínverjum að kaupa land og ég spái því að á næstu árum munu Kínverjar efna til stórra landakaupa í Úkraínu, beint eða óbeint,“ segir Miles Yu blaðamaður hjá The Washington Times.

Ósamræmanleg þjóðfélagsgildi

Að mínum dómi er rétt fyrir okkur Íslendinga að staldra við og hugsa út í hvílíkt glapræði það væri að gera 30 þúsund hektara Íslands að kínversku yfirráðasvæði. Grunnþjóðfélagsgildi þessara landa eru ósamræmanleg. Hér eru mannréttindi samkvæmt vestrænni lýðræðishefð ofar öðrum gildum. Í Kína eru þau virt að vettugi. Við Íslendingar tökum Dalai Lama, leiðtoga Tíbets sem býr í útlegð á Indlandi, opnum örmum og styðjum réttindabaráttu Tíbetbúa sem og baráttu kínverskra andófsmanna gegn grófum mannréttindabrotum í heimalandi sínu .

Í grein sem Einar Benediktsson fyrrverandi sendiherra, sem gjörþekkir alþjóðastjórnmál eftir áratuga langt starf sem sendiherra, skrifaði íFréttablaðið 9. maí síðastliðinn segir hann: ,,Samvinnu við Kína hérlendis sem tengist einhverjum óljósum eigna- eða leiguyfirráðum þeirra á íslensku landsvæði ætti alveg að útiloka. Slíkt er meira mál en aðilar á sveitastjórnarstigi og lögfræðingar iðnaðarráðuneytisins eigi að greina. Um er að ræða grundvallaratriði utanríkisstefnu Íslands í samskiptum við erlend ríki og í þessu tilviki það viðkvæma atriði, að allar langtíma fyrirætlanir kínverskra stjórnvalda eru duldar og óþekktar. Langtíma yfirráð Kínverja á íslensku landsvæði væri fáránleg ráðstöfun.“

Ég tek fullkomlega undir orð Einars og vil ganga enn lengra með því að segja að þetta væri ekki aðeins fáránleg ráðstöfun heldur beinlínis hættulegar ráðagerðir fyrir framtíð Íslands.

Höfundur er MA í sagnfræði og fyrrverandi fréttastjóri