Glæsilegt Glaðheima hverfi að rísa

553

Af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúum í Kópavogi fjölgað hvað mest síðustu árin. Árið 1990 voru íbúar bæjarins um 16.000 en nú tæplega 30 árum síðar er talan komin í liðlega 36.000 manns. Hlutur Kópavogs af íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins hefur aukist úr um 11% í liðlega 16% enda fjölgaði bæjarbúum um 112% á þessum árum. Til samanburðar fjölgaði aðeins um liðlega 20% í höfuðborginni. Ný hverfi spruttu upp hvert af öðru, Digraneshlíðar, Smárar, Lindir, Salir, Kórar, Hvörf og Þing. Í raun byggðist upp nýr bær á þessum árum og það er óhætt að segja að nýju hverfin njóti mikilla vinsælda. Við uppbyggingu nýju hverfanna var lagt upp úr góðu skipulagi ásamt hröðum og góðum frágangi. Götur, stígar, opin svæði og skólar, bæði grunnskólar og leikskólar, íþróttamannvirki, verslanir og önnur þjónusta fylgdu uppbyggingunni. Nýju hverfin voru kláruð frá a til ö.

Staðsetning Kópavogs á miðju höfuðborgarsvæðinu, er góð m.a. með tilliti til samgangna og byggingarlandið er gott. Byggðaþróunin í austur hefur verið hröð allt frá Hafnarfjarðarvegi að Elliðavatni. Í aðalskipulagi bæjarins, sem tók gildi 2014, kveður við nýjan tón. Í stað útþenslu skal byggt inn á við, þ.e. þétta byggðina. Í raun hófst undirbúningur að þessari stefnubreytingu upp úr síðustu aldamótum þegar Kópavogstúnið og Lundur voru skipulögð á árunum 2003-2005. Það er hagkvæmt að byggja þéttar og nær miðjunni því það styttir fjarlægðir og ferðatíma, sparar orku, styrkir almenningssamgöngur og nýtir grunnkerfi bæjarins betur. Það er dýrt að keyra langar vegalengdir til og frá vinnu. Því er annað af megin markmiðum aðalskipulagsins að blanda byggð meira en áður var gert þannig að búseta og vinna nýtist betur saman. Við að þétta og blanda byggð skapast möguleiki á að bæta þjónustuna enn frekar við íbúa og ný tækifæri myndast t.d. að búa og starfa á sama frábæra staðnum og það miðsvæðis.

Þéttingarsvæðin í bænum eru alls átta talsins. Þau eru Glaðheimar, 201 Smári, Nónhæð, Auðbrekka, Lundur og Kópavogstún við Hafnarfjarðarveg. Að auki eru tvö svæði á Kársnesi; bryggjuhverfið við Fossvog og bryggjuhverfið við Kársneshöfn. Þegar þessi svæði verða fullbyggð verða um 3.200 íbúðir komnar í notkun, allar í fjölbýli. í Glaðheimum, Lundi og á Kópavogstúni eru byggingarframkvæmdir langt komnar. Framkvæmdum við uppbyggingu bryggjuhverfisins í Fossvogi og 201 Smára eru vel á vel komnar og það sama er hægt að segja við um Auðbrekku og Hafnarbraut ofan Kársneshafnar.

Öll þéttingarsvæðin eiga það sameiginlegt að þar er vandað til verka. Lögð hefur verið áhersla á glæsilegar byggingar, vönduð og viðhaldslítil byggingarefni, fjölbreyttar stærðir íbúða og þá sérstaklega litlar og meðalstórar íbúðir. Allur frágangur á lóðum er til fyrirmyndar þar sem gróður fær að njóta sín. Allt eru þetta þættir sem fyrirskrifaðir eru í deiliskipulag þessara svæða. Eitt af markmiðum í skipulagningu nýju hverfanna er að þau verði áhugaverð og eftirsótt. Jafnvel þó skipulagsskilmálar í deiliskipulagi séu ítarlegir og forskriftin góð þá reynist alltaf best að skipuleggja nýja byggð í samvinnu við hönnuði og byggingarverktaka. Slík samvinna hefur verið til fyrirmyndar á öllum þéttingarsvæðum bæjarins. Sem dæmi má nefna verklag við skipulag, hönnun og framkvæmdir við Glaðheimahverfið þar sem framkvæmdir eru nú á lokametrunum.

Glaðheimasvæðið

Fyrstu hugmyndir að deiliskipulagi Glaðheima voru unnar ári 2009 af skipulags- og byggingardeild Kópavogs og endurskoðaðar í byrjun árs 2014. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir um 300 íbúðum í fjölbýli á 10 lóðum. Hæstu húsin á svæðinu eru 10 hæðir en að jafnaði eru húsin 4-6 hæðir og flest þeirra með bílakjallara. Óskað var eftir umsóknum um byggingarétt á svæðinu í byrjun árs 2015. Skilyrt var að með umsóknum fylgdu m.a. drög að hönnun og útliti fyrirhugaðrar byggingar á þeirri lóð sem sótt var um byggingarrétt á.

Eftir að ákvörðun um úthlutun um byggingarrétti lóðanna hafði verið tekin var boðað til fundar með byggingaraðilum og hönnuðum þar sem m.a. skipulag svæðisins og skipulagsskilmálar voru kynntir og ræddir. Áhersla bæjarins var mjög skýr, Glaðheimahverfið átti að verða glæsilegt í alla staði. Allir yrðu að leggja sig fram; bærinn, hönnuðir og verktakar. Fjöldi samráðsfunda voru haldnir og hægt og sígandi mótaðist hverfið. Teikningar af fallegum byggingum litu dagsins ljós sem lagðar voru fyrir skipulagsráð bæjarins og síðan áfram til byggingarfulltrúa til afgreiðslu. Í byggingaráformunum kom ekki bara fram útlit og innra fyrirkomulag fyrirhugaðra húsa heldur einnig hvernig þau féllu að deiliskipulagi svæðisins og þeirra væntinga sem gerðar voru til hverfisins þegar það yrði fullbyggt. Kópavogsbær vann jafnframt að hönnun bæjarrýmisins, þ.e. gatna og opinna svæða með landslagsarkitekt. Var það gert í samvinnu við lóðarhafa í hverfinu. Markmiðið var að tengja á sem bestan hátt bæjarlandið og útfærslu lóða við húsin, þannig að efnisval og útlit væri samræmt. Inn í þeirri vinnu var m.a. hugað að samræmdri lýsingu, skjólveggjum og gróðri. Að lokum var unnið að glæsilegri heimasíðu fyrir hverfið í samvinnu við Markaðsstofu Kópavogs en þar má finna allar nánari upplýsingar um Glaðheima á www.gladheimahverfid.is Á næstu árum munu þéttingarsvæðin klárast eitt af öðru í bænum og það verður gaman að fylgjast með glæsilegum hverfum fyllast af mannlífi og gróa í sátt og samlyndi við þau hverfi sem til staðar eru í okkar fallega Kópavogi.

Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.