Bólusetningar barna verði skylda til þess að komast á leikskóla eða í skóla.

769

Fyrir nokkru síðan bað ég lögmenn Kópavogsbæjar athuga hvort sveitafélagi væri heimilt að innleiða reglur þess efnis um að til þess að fá skólavist í skólum eða leikskólum væri krafa um að framvísa bólusetningarvottorði.

Spurninganar mínar voru settar upp í fjórum eftirfarandi liðum.

  • Athuga hvort Kópavogsbæ sé heimilt að skrá upplýsingar um bólusetningar barna og ef svo er, hverju þurfi að gæta að við þá skráningu.
  • Athuga hvort Kópavogsbæ sé heimilt að láta aðra foreldra vita af óbólusettum börnum í leik- og grunnskóla.
  • Athuga hvort það sé hlutverk Kópavogsbæjar að veita fræðslu um bólusetningar almennt.
  • Athuga hvort Kópavogsbæ sé heimilt að gera þá kröfu að foreldrar barna í leik- og grunnskólum framvísi bólusetningarvottorði vegna kíghósta.

Skemmst er frá því að segja að sveitafélögum er þetta ekki heimilt, ekkert af þessu. Ástæðurnar eru að verkefnin eru öðrum falin. Það er að sóttvarnarlækni ber að safna saman þessum upplýsingum í samstarfi við heilsugæslustöðvar og halda yfir þetta skrá. Þar eru skráðar bólusetningar sem og „ekki bólusetningar“. Upplýsingarnar eru því vitanlega til en sveitafélagi er ekki heimilt að fá þessar upplýsingar né halda upplýsingum saman um þau börn sem eru ekki bólusett. Sveitafélög mega heldur ekki fara af stað með almenna fræðslu um mikilvægi bólusetninga.

Niðurstaðan vonbrigði.

Niðurstaðan er því sú, að þrátt fyrir að hafa skyldu til að reka skóla og óbeina skyldu til að reisa og reka leikskóla þá má sveitafélag ekki auka öryggi barna og fjölskyldna með þessum hætti. Hins vegar ber okkur að fara ýtarlega eftir reglum um rétt fæði, fermetrafjölda- og stöðugilda per barn. Við berum ábyrgð á öryggi barna sem dvelja langtímum saman á þessum stofnunum en krafa um að börn sem dvelja þar séu bólusett til þess að vernda heildina er ekki leyfileg.

Það er alls ekki að ástæðulausu að bæjarfulltrúi í Kópavogi fer í þessa vegferð. Ég eins og svo margir fylgdist með hetjulegri baráttu nokkurra vikna gamallar dóttur núverandi Iðnaðar-nýsköpunar og ferðamálaráðherra, Þórdísar Kobrúnar Reykfjörð. Litla daman hennar veiktst heiftarlega á fyrstu vikum ævi sinnar af kíghósta og barðist á barnaspítalanum vikum saman við hræðilega andnauð og hósta. Líkurnar á því að hún veiktist eru auðvitað alltaf einhverjar án skyldubólusetningar, en með skyldubólusetingu barna í skólum og leikskólum dregur verulega úr þeim.

Ég hef því ákveðið að taka þessa umræðu þó svo að ég viti að hún sé viðkvæm og orðið fasismi heyrist á köflum í henni. Rökin gegn þessu eru að engum í raun ber að upplýsa um sitt heilsufar öðrum til varnar. Sjúkraskrár eru verndaðar og heilbrigðisstarfsfólk er bundið þagnarskyldu. Ég hef hins vegar viljað fella mitt frelsi að hluta til og rétt til friðhelgi einkalífsins til þess að vernda sér í lagi hvítvoðunga sem eru varnarlausir fyrir smitsjúkdómum eins t.d.og kíghósta og mislingum. Almenn bólusetning hefst ekki fyrr en við nokkurra mánaða aldur og eru þau varnarlaus fram að því.
Mér hefur einnig verið bent á að á Íslandi er yfir 95% allra þegna bólusettir og hefur m.a. sóttvarnarlæknir bent á að boð og bönn þurfi ekki og mögulega skaði viljuga bólusetningu fólks. Sumir foreldrar vilja ekki bólusetningu barna sinna vegna persónulegra skoðanna eða trúarafstöðu. Nefndar hafa verið „rannsóknir“ sem tengja bólusetningu við einhverfu en þær hafa allar verið hraktar. Svo eru það þeir sem mega ekki fá bólusetningu vegna ofnæmis og treysta þau börn alfarið á almenna bólusetningu annarra vegna þess.

Það þarf enginn sérstök leyfi til þess að eiga börn.

Við sem foreldrar þurfum enginn sérstök leyfi til að eignast börn. Það er í raun flóknara verkefni að eignast hund. Þá á að skrásetja og bólusetja að öðrum kosti er hundurinn tekinn af manni. Ég hef aldrei litið svo á að ég „eigi“ börnin mín. Ég fæ að ala þau upp, njóta samvista við þau og vera mamma þeirra. Samfélagið með öllum sínum reglum og lögum leggur mér svo fyrir leikreglurnar um hvað ég má og má ekki gera við börnin mín. Við erum með virka barnavernd í sveitafélögum og það er skólaskylda á Íslandi. Stjórnvöld vernda því börnin okkar frá misvitrum foreldrum sem kunna ekki eða geta ekki tekið ábyrgð á barni. Ég hef starfað í barnavernd og veit að það eru ekki alltaf sjáanlegu sárin á börnunum sem eru verst. Afskiptaleysi, ástleysi, skortur á umhyggju og næringu geta verið alveg jafn slæm eins og hvert annað högg á litla skrokka.

Hvers vegna ættu stjórnvöld því ekki að heimila sveitafélögum að til þess að fá vist í skóla eða leikskóla þarf að framvísa bóluetningavottorði? Slíkt er vel þekkt erlendis og td.gert á Spáni og sumstaðar er útgreiðsla barnabóta háð bólusetningu barna.

Ég skora á Alþingi að taka þessa umræðu og víkka heimildir sveitafélaga um að krefjast bólusetningaskírteina við leikskóla-eða skóladvöl. Málið er í þeirra höndum og nú þurfum við á smá hugrekki og kjarki þeirra á að halda til þess að breyta lögum á þennan veg.