Barnasáttmálinn

462

Kópavogsbær hefur gert samstarfssamning við UNICEF um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með undirritun Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra og Bergsteins Jónssonar framkvæmdarstjóra UNICEF. Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989 og hefur nú verið staðfestur af 192 löndum, er hann sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum. Í 9.grein stendur „Aðildarríki skulu tryggja að börn verði ekki skilin frá foreldrum sínum nema ef velferð barnanna verður ekki tryggð með öðru móti. Barn sem ekki elst upp hjá báðum foreldrum á rétt á að umgangast þá báða reglulega nema það sé andstætt hagsmunum þess.“ Í 19.grein stendur „Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.

Ég hef stundum hugleitt þær sögur sem börnum voru sagðar hér áður fyrr. Margar þeirra, og reyndar mjög margar þeirra, virðast samdar og sagðar börnun í þeim eina tilgangi að hræða þau. Sögur af grimmum úlfum úti í skógi sem reyndu sérstaklega að éta litlar telpur sem voru einar á ferli eða ljótum nornum sem tóku börn til fanga í þeim tilgangi að fita þau og hafa síðan í matinn. Eða eins og ég man eftir í mínu uppeldi frá ömmu minni, ,,ljóta kallinum í bökkunum” sem átti það til að ná börnum ef þau voru ein á gangi nálægt bökkunum sérstaklega þegar dimmt var orðið á kvöldin. Getur verið að mæður og feður fyrri ára hafi verið svona illa innrætt að þau hafi skemmt sér sérstaklega vel við þá iðju að hræða börnin sín, segja þeim hræðilegar draugasögur á kvöldin þannig að þau þorðu ekki að vera úti þegar dimmt var orðið, allavega ekki einsömul. Eða var þetta kannski það eina sem móðirin gat gert til að vernda barnið sitt fyrir perranum í næsta húsi, perranum í plássinu sem naut virðingar allra þegar bjart var á daginn, sem kannski var prestur eða kaupfélagsstjóri eða jafnvel hreppstjóri? Getur verið að allir þessir hræðilegu úlfar, nornir og draugar hafi í raun verið vondir menn sem gengu óáreittir um plássið? ,,Allir vissu af þessu” en engin gerði neitt? Samfélagið á þessum tíma sem ég vitna hér til tók ekki á svona málum og áreitismál voru þögguð niður. Viðurlög voru engin, réttindi barna voru engin, helst voru börn til sjávar og sveita “,,ódýrt” vinnuafl. Í 32.grein sáttmálans stendur: „Börn eiga rétt á vernd gegn arðráni og vinnu sem spillir eða hindrar nám þeirra eða skaðar heilsu þeirra og þroska. Ríki skulu setja lög um vinnuvernd barna“. Þessi grein er kannski ekki eins nauðsynleg hér á landi eins og hún hefði verið fyrir svona 50 árum eða svo,sem betur fer. Ég verð að viðurkenna að þegar ég las grein 38 setti að mér svolítinn óhug en þar stendur: ,,Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að þeir sem ekki hafa náð fimmtán ára aldri taki ekki beinan þátt í vopnaviðskiptum. Aðildarríki skuli forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu.Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir. Við þurfum sem betur fer ekki að lifa við þá hörmung og sorg sem knýr fólk til að sameinast um þær setningar sem 38. greinin geymir en hún vekur mann til umhugsunar um aðstæður sem börn þurfa að búa við víða í heiminum. Það er margt í barnasáttmálanum sem við sem samfélag þurfum að taka til okkar og nú hefur Kópavogur skuldbundið sig til slíkra verka. Ég hlakka til þeirrar vinnu og er stoltur af bæjarfélaginu mínu fyrir að hafa stigið þetta mikilvæga skref.

Guðmundur Geirdal, bæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Kópavogsbæjar