Arnarnesvegur er lífsnauðsynlegur

490

Framkvæmdir við Arnarnesveg eru brýnasta samgöngubót höfuðborgarsvæðisins og með þeim brýnni á landinu öllu. Í Vatnsendahverfi í Kópavogi búa nær 10.000 manns, í Linda- og Salahverfi rúmlega sex þúsund. Umferðin út á Breiðholtsbraut þræðir sig í gegnum hverfið, gatnamót Vatnsendavegar og Breiðholtsbrautar eru löngu sprungin. Viðbragstími sjúkraflutninga og eldsvoða í efri byggðum stenst til að mynda ekki kröfur sem gerðar eru til sveitarstjórna.

Það sætir því mikilli furðu að í nýrri Samgönguáætlun er Arnarnesvegi enn og aftur frestað. Bæjarstjórn Kópavogs hefur frá efnahagshruni sýnt mikinn skilning hvað varðar vegaframkvæmdir en það er óhætt að fullyrða að það hvarflaði ekki að bæjarfulltrúum í Kópavogi að þessi framkvæmd yrði á ný færð aftar í nýrri samgönguáætlun. Ákvörðunin er blaut tuska í andlit íbúa í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og í raun efri byggða Reykjavíkur líka.

Í Vatnsenda er að byggjast upp mikið atvinnusvæði og áform um enn frekari uppbyggingu þar. Í frétt Morgunblaðsins fyrir skömmu var til að mynda skýrt frá því að verið er að vinna af fullum þunga í að fullklára 16.000 fm. atvinnuhúsnæði í Urðahvarfi og má reikna með að þar muni sjö til níu hundruð manns vinna innan mjög skamms tíma. Þannig heldur umferðaþungi áfram að vaxa í hverfinu og óbreytt ástand því með öllu óboðlegt.

Ég hef nú þegar sent þingmönnum SV-kjördæmis bréf þar sem ég hvet til þess að þeir beiti sér til að ákvörðunin verði endurskoðuð, vonandi verður brugðist við því ákalli. Það er hagsmunamál og ekki síður öryggismál að hið fyrsta verði farið í þessa framkvæmd.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi