fbpx

Andri Steinn Hilmarsson

Aðstoðarmaður þingflokks

Býður sig fram í 2 -3. sæti.

Kæru Kópavogsbúar,

Ég sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjörinu. Ég hef síðustu átta ár, eða síðan ég var tvítugur, tekið þátt í bæjarmálum sem varabæjarfulltrúi og í nefndum bæjarins. Landfræðileg lega Kópavogsbæjar, og með breytingum í ferðavenjum fólks og spennandi uppbyggingu innan um gróin hverfi, er að hefjast nýtt skeið mannlífs í Kópavogi þar sem fólk getur sótt meiri þjónustu innan bæjarins. Mér þykir vænt um bæinn minn og langar að leggja mitt af mörkum til þess að Kópavogur verði áfram eftirsótt sveitarfélag til að búa í. Ég bý í Smárahverfi ásamt unnustu minni og dóttur, sleit barnsskónum í Hjallahverfi áður en fjölskyldan flutti í Lindahverfi þar sem ég ólst upp. Ég tók saman áherslur mínar í helstu málaflokkum hér að neðan:

• Lausnir í leikskólamálum. Staðan versnar stöðugt í leikskólamálum á öllu höfuðborgarsvæðinu. Taka þarf leikskólamál föstum tökum á næsta kjörtímabili. Fjölga þarf faglærðum leikskólakennurum og leita leiða til að tryggja börnum leikskólaplássi að fæðingarorlofi loknu.

• Rekstrarform skiptir ekki máli. Sjálfstætt starfandi skólum gert jafn hátt undir höfði og skólum á vegum sveitarfélagsins. Fjölbreyttir skólar skapa fjölbreytt samfélag. Ég vil að sjálfstætt starfandi skólum verði tryggt sama framlag með hverjum nemanda og skólum á vegum bæjarins.

• Öruggt og hagkvæmt húsnæði fyrir alla. Flöskuhálsinn á fasteignamarkaði er lóðaskortur. Síðustu ár hefur verið ör uppbygging í Kópavogi en þrátt fyrir að fá svæði séu óbyggð innan bæjarins þurfum við að hraða uppbyggingu á svæðunum. Lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu er alvarlegt mál. Hraða þarf uppbyggingu á þróunarsvæðum á Hamraborgarsvæðinu og á Kársnesi.

• Hóflegar álögur á íbúa. Fjárhagsstaða bæjarins er sterk en skattheimtan er mikil. Mun hærra útsvar er innheimt í Kópavogi en í nágrannasveitarfélaginu Garðabæ. Fyrir par á meðallaunum Íslendinga munar 600 þúsund krónum í greitt útsvar í Kópavogi og Garðabæ á næsta kjörtímabili. Við þurfum að setja okkur markmið um lægri útsvarsprósentu og vinna að því að koma okkur þangað. Stöðva þarf hækkun fasteignagjalda og breyta fyrirkomulaginu til að koma í veg fyrir freistnivanda sveitarfélaganna til að lækka ekki skattinn, til þess að vega á móti hækkunum á fasteignamati ríkisins.

• Heilbrigður bær. Áhersla á fjölbreytta og vistvæna ferðamáta. Huga þarf að öryggi ólíkra vegfarenda. Betra stígakerfi er grunnur vistvænna samgangna, ýtir undir hreyfingu og útivist, og stuðlar að bættri lýðheilsu bæjarbúa.

• Fjölbreyttar samgöngur. Gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins er komið að þolmörkum og íbúum heldur áfram að fjölga. Mörg hverfi bæjarins þola ekki aukna umferð og því þarf að stuðla að mjög breyttum ferðavenjum fólks. Fyrsti áfangi Borgarlínu frá Hamraborg með brú yfir Fossvog og yfir á stærsta atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins gerir almenningssamgöngur að raunhæfum möguleika fyrir fleiri íbúa. Fyrir marga þýðir það að hægt sé að fækka bílum á heimilinu um einn. Almenningssamgöngur þurfa að vera skilvirkar og tíðar. Skýra þarf fjármögnun reksturs Borgarlínu áður en lengra er haldið. Strætó hefur á þessu ári skert þjónustu sína með fækkun ferða á öllum leiðum til þess að skera niður í rekstrarkostnaði. Það skýtur skökku við á sama tíma og stofnkostnaður Borgarlínu hleypur á tugum milljarða. Styðja þarf við deilibílaþjónustur um afnot af bæjarlandi og byggja upp stígakerfi sem þjónar samgönguhjólreiðum.

• Hjartað í hverfin. Hverfin í Kópavogi eru ólík og skipulögð yfir langt tímabil. Við þurfum að stefna að því að hverfin verði sjálfbærari og hægt verði að sækja meiri þjónustu innan hverfis. Horft verði til þess að skapa hverfiskjarna til þess að auka mannlíf innan hverfa og þjónusta þau betur.

• Persónuleg og góð þjónusta við eldri borgara. Áskoranir eru framundan í málefnum eldri borgara. Samhliða öldrun þjóðar þurfum við að auka stuðning og heimaþjónustu. Tryggja þarf að kerfin okkar séu skilvirk og hagkvæm. Kópavogur verði leiðandi í nýtingu á velferðartækni til þess að tryggja góð lífsgæði fólks. Tryggja þarf framboð af húsnæði fyrir fólk sem hentar ekki dvöl á hjúkrunarheimili en er tilbúið að minnka við sig, eða flytja úr núverandi húsnæði.

• Aðgengilegri upplýsingar. Erfitt getur verið fyrir bæjarbúa sem eru illa inn í málum að kynna sér hluti sem koma þeim við. Einfalda þarf aðgengi fólks að upplýsingum á vefsvæði bæjarins. Með því að taka í notkun talgreini sem ritar ræður á bæjarstjórnarfundum verður efni fundanna aðgengilegra íbúum og þeim auðveldað að kynna sér pólitíska umræðu um tiltekin mál á vettvangi bæjarstjórnar. Þetta er líka aðgengismál fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta.

• Einkarekstur. Hvar værum við ef ekki væri fyrir framtakssama einstaklinga í rekstri. Bærinn á að styðja við einkarekstur hvar sem hann getur. Bæjarfélagið skal skapa jákvætt umhverfi fyrir fyrirtæki með einfaldara regluverki og viðmóti. Leitast skal við því að útvista verkefnum bæjarins sem óþarft er að sinnt sé af sveitarfélaginu.

• Reykjanesbraut í stokk. Ég hef lengi talað fyrir því að Reykjanesbrautin verði sett í stokk, og um þessar mundir fer fram hugmyndasamkeppni um útfærsluna. Mikilvægt er að horfa til alls svæðisins sunnan Smáralindar við ákvarðanatöku og tryggja að útfærslan verði viðunandi til framtíðar. Þarna er annar tveggja miðbæjarkjarna bæjarins, með Smáralindina og alla þjónustuna sem þar er að finna, tvö háhýsi sem hýsa mikinn fjölda og byggðin í kring er þétt. Möguleikarnir eru miklir á mannlífi á svæðinu og það er gífurlegt hagsmunamál að vel takist til við framkvæmdina.

• Og öll hin málin

o Mig langar að fá þurrgufu (saunu) í Salalaug og Kópavogslaug því ég stend sjálfan mig að því að heimsækja laugar utan bæjarins til þess að komast í þurrgufuna, og veit að margir eru sama sinnis.

o Ég vil búa í fallegum og snyrtilegum bæ. Það er forgangsmál í rekstri bæjarins að sinna umhverfinu vel, hlúa að fasteignum og bæjarlandi. Hvetja íbúa til þess að fegra húsin sín og garðana. Það eykur hamingjuna.

o Grenndargerði eru millistig sorpgeymslunnar þinnar og Sorpu. Samhliða samræmdri úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu þurfum við að gera grenndargerðunum okkar hátt undir höfði, lýsa þau vel upp og ganga vel um. Það verður einhvern veginn auðveldara að fara með flokkað sorp þegar það er gert í snyrtilegra umhverfi.  

















andristeinn@althingi.is