Áfram hreyfing og hollusta

423

Íþróttastarf í Kópavogi er með því allra öflugasta á landinu.  Þátttaka í íþróttum er mjög mikil og boðið er upp á fjölbreytt starf.  Er þar fyrst og fremst hinu öfluga starfi í íþróttafélögunum að þakka að jafn vel hefur tekist til og raun ber vitni.  Kópavogsbær kemur þó með virkum hætti einnig að starfi íþróttafélaganna, m.a. með því að leggja til íþróttamannvirkin og með sérstökum samningum við stærstu félögin.  Saman verður til öflugt samstarf sem skilar sér til bæjarbúa.

Íþrótta- og tómstundastyrkur nýtanlegur á einn stað

Við hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi viljum halda áfram að vinna með íþróttafélögunum.  Við viljum meðal annars skoða mál sem eiga jafnt við um öll íþróttafélögin.  Í þeim efnum má nefna að við viljum endurskoða reglur um íþrótta- og tómstundastyrki þannig að heimilt verði að setja má allan styrkinn á einn stað þ.m.t. tónlistarnám.  Með þessu viljum við koma í veg fyrir að styrkur lækki við það eitt að barn stundi eina íþrótt.

Við vitum hins vegar að það er mjög algengt að börn stundi t.d. tvær íþróttir hjá mismunandi íþróttafélögum.  Má sem dæmi nefna knattspyrnu hjá Breiðablik eða HK og svo fimleika hjá Gerplu.  Við viljum hvetja og stuðla að því að íþróttafélögin ræði saman um heildarskipulag stundaskrár í yngstu iðkendanna til að koma í veg fyrir árekstra.  Slík samvinna ætti að stuðla að því að börn geti lengur en ella nýtt hið fjölbreytta íþróttastarf sem boðið er uppá í Kópavogi.

Sameiginlegur íþróttavagn

Bæði HK og Breiðablik hafa haldið úti sérstökum hópferðabifreiðum fyrir sína starfssemi.  Er það mat okkar það sé rétt að Kópavogsbær komi að þessari þjónustu í samstarfi við félögin.  Er hér um að ræða þjónustu sem er afar mikilvæg fyrir foreldra. Með samstilltu átaki og skipulagi má ætla að hægt verið að veita þessa þjónustu með enn hagkvæmari hætti.

Bætt aðstaða Gerplu

Almennt er aðstaða til íþróttaiðkunnar mjög góð í Kópavogi. Nú er hins vegar uppi sú staða að aðsókn í fimleika hjá Gerplu er langt umfram það sem félagið ræður við.  Er hér aðallega um að ræða ungar stúlkur sem ekki fá pláss hjá félaginu enda eru fimleikar ein allra vinsælasta íþrótt á landinu öllu meðal ungra stúlkna.  Í vetur hefur starfað sameiginleg nefnd á vegum Kópavogsbæjar og Gerplu um að bæta aðstöðu félagsins.  Þar hefur komið fram að Gerpla er tilbúið að leggja fram fjármuni sem félagið eignaðist við sölu á íþróttahúsi félagsins að Skemmuvegi árið 2005. Að teknu tilliti til þess þá teljum við eðlilegt að ráðast í að bæta aðstöðu til fimleikaiðkunar í samstarfi við Gerplu.

Jón Finnbogason
Skipar 7. sæti á lista Sjálfsstæðisflokksins