Æsku blíða vorið

395

-Menntun barna má aldrei gleymast

Menntamál hafa ekki verið ofarlega á baugi í þessari kosningabaráttu en þau eru okkur Sjálfstæðismönnum alltaf hugleikin og voru fyrirferðamikil í ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta landsfundi.

Kennsla í leik- og grunnskóla hefur gjörbreyst á undanförnum árum. Í leikskólum er unnið mjög metnaðarfullt starf þar sem börnin okkar hefja nám í fjölmörgum greinum. Leikskólar hafa tileinkað sér ólíkar stefnur með góðum árangri þannig að börnum í þéttbýli býðst að velja á milli skóla með mismunandi áherslur. Tölvutæknin, ný aðalnámskrá og bætt námsgögn hafa haft mikil og góð áhrif á starf í grunn- og leikskólum auk þess sem áhersla á betri menntun og endurmenntun kennara skilar sér vel inn í starfið.
Titill þessarar greinar er sóttur í Barnagælur Sveinbjörns Egilssonar úr Skólaljóðum. Þrátt fyrir tækniframfarir og breyttar áherslur þá eigum við líka til sígildar námsbækur og gamalreyndar námsaðferðir sem við þurfum að vera ófeimin við að nota í bland.

Óréttmæt umræða um kostnað til menntamála
Mér þykir umræðan um menntamál stundum hafa verið á neikvæðum nótum. Til dæmis er rætt um þá staðreynd að hærri upphæðir fari hér til menntamála en í nágrannalöndum okkar. Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki verið að kasta peningum á glæ í skólum landsins. Gott skólakerfi er dýrt fyrir okkur sem erum fámenn og búum í stóru landi en við höfum haft metnað til að byggja upp nám í heimabyggð, þrátt fyrir litla bekki og fámenna árganga. Öll yfirstjórn menntamála deilist á mun færri íbúa hér en í stærri löndum. Kostnaður vegna íslenskunnar, okkar sameiginlega tungumáls, skekkir einnig samanburð við önnur lönd. Það er óhemju dýrt að framleiða námsefni sem aðeins hentar um 4000 einstaklingum í hverjum árgangi, prentun í litlu upplagi verður auk þess alltaf margfalt dýrari. Einnig má nefna húsnæðiskostnað sem er mikill hér á landi, enda þurfa íslenskar byggingar að þola bæði óblíða veðráttu og náttúruhamfarir auk þess sem viðhaldskostnaður hér er hár.

Endurskoða þarf stefnu um skóla án aðgreiningar
Við hjónin eigum þrjú börn, fædd á árunum 2003 til 2008. Elsta barnið okkar, sem nú er 10 ára, er greindur einhverfur svo þjónusta starfsfólks skólanna við fatlaða er fjölskyldunni nokkuð kunn. Fyrir nokkrum árum var innleidd hér stefna sem nefnist „skóli án aðgreiningar“. Þetta er í sjálfu sér falleg stefna sem snýst um að börn með mismunandi fötlun geti sótt hverfisskóla þar sem þjónusta við þau er veitt um leið og þau njóta samvista með jafnöldrum sínum. Könnun sem fram fór á meðal grunnskólakennara á síðasta ári gaf til kynna að fjórðungur þeirra hefur ekki trú á stefnunni og aðeins 42% kennara eru jákvæð eða mjög jákvæð gagnvart henni. Þessi niðurstaða hlýtur að gefa tilefni til þess að skoða hvað veldur óánægju og gera breytingar í takt við niðurstöður. Ég er á þeirri skoðun að þessi stefna henti ekki í öllum tilvikum og að endurskoða beri hana sem allra fyrst í samstarfi við starfsfólk skólanna. Ég vil einnig nefna að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var svohljóðandi ályktun samþykkt; Ef hverfisskóli getur ekki mætt þörfum barna með sérþarfir að mati foreldra þeirra skal tryggja annan valkost um skólavist þar sem betri líkur eru á að þörfum barnsins verði mætt.

Álag á kennurum er áhyggjuefni
Skóli án aðgreiningar, hagræðing í skólum og fjölgun nýbúa, allt gerir þetta starf kennarans flóknara og meira krefjandi. Aukið álag á kennurum af þessum sökum kann að hamla stuðningi þeirra við nemendur.
Við höfum áhyggjur af brottfalli nemenda úr skólum hérlendis. Ég er ekki í vafa um að stuðningur kennara við þessa einstaklinga skiptir miklu máli. Þess vegna er mikilvægt að huga að starfsálagi kennara auk þess sem skoða þarf einföldun á kjarasamningum og auka svigrúm skólastjórnenda og kennara í störfum sínum. Kjarasamningar eiga ekki að stýra skólastarfi.

Að lokum við ég nefna að Sjálfstæðisflokkurinn leggur sem fyrr ríka áherslu á að öflugt og fjölbreytt íþrótta-, lista-, og æskulýðsstarf sé stundað um land allt enda sýna rannsóknir að markvisst tómstundastarf hefur mikið forvarnargildi fyrir börn og ungmenni.