Á hverju ætlum við að lifa?

464

„Á hverju ætlum við að lifa“ sagði formaður Samtaka iðnaðarins á fundi fyrir nokkru. Tilefni þess var spurningin um hvert erum við að stefna í ríkisfjármálum og starfsumhverfi fyrirtækja. Það er með ólíkindum að upplifa á samdráttartímum að störfum hjá hinu opinbera er að fjölga verulega á meðan fyrirtæki eru draga saman seglin til þess að mæta háum álögum og kjarasamningum. Flestir vita að raunveruleg verðmætasköpun getur bara átt sér stað hjá fyrirtækjum með auknum útflutningi, iðnaði og þjónustu. Stefnan sem hefur verið tekin undanfarin ár hjá ýmsum ráðuneytum ber ekki þess vitni.

Hjá Heilbrigðisráðuneyti eru skilaboðin skýr. Hið opinbera á að reka meira og minna alla þjónustu við sjúklinga. Einkaframtakinu er markvisst hafnað. Það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki en skilaboðin til þeirra sem treysta sér í slíkt nám eru að það verði bara einn vinnustaður í boði að námi loknu, Landsspítalinn, eða flytja erlendis. Sjúklingar eru fluttir erlendis í aðgerðir þrátt fyrir að kostnaður og umstang við slíkt er mun meiri heldur en ef slíku væri úthlutað til einkarekinnar læknisþjónustu hér á landi. Fjármunum er hreinlega sóað og störfum og tækifærum innanlands fækkar með þessari stefnu Umhverfisráðherra leggur til hálendisþjóðgarð þvert á vilja sveitafélaga sem óttast um skipulagsvald sitt og aðgengi. Garðurinn á að fjölga opinberum störfum enn frekar og reksturinn á slíkum haálendisgarði er algerlega óræddur en mun líklega kosta milljarða. Ofan í þetta kemur fátt annað frá þessu ráðuneyti en auknir skattar, í skjóli umhverfisverndar, sem draga enn frekar úr mætti atvinnulífins og eykur samhliða álögur á fjölskyldur.

Gagnrýni á skiptingu ráðuneyta í þessari ríkisstjórn hefur verið á þann veg að hver flokkur rekur sitt ráðuneyti í nokkrum friði frá stefnu hinna flokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn er með Dómsmálaráðuneytið sem líkega er einn snúnasti málaflokkurinn og hefur verið rekin skörunglega af tveimur konum sem hafa tekið að sér mál sem fáir treysta sér í. Niðurstaða eins slíks máls ætti að vekja þingmenn úr dvala um að ræða réttindi og skyldur opinbera starfsmanna. Dýrir starfslokasamningar sem fáir geta tekið undir að séu réttlætanlegir ættu að verða til þess að fyrrgreind lög verði endurskoðuð með það að markmiði að hægt sé að víkja fólki úr starfi líkt og gerist hjá einkafyritækjum. Sjávarútsvegsráðuneytið er sagt reka stefnu stórútgerða en ég er nokkuð viss um að ef hinn almenni Sjálfstæðismaður væri spurður myndi hann vilja sjá skref í þá átt að fjölga tækifærum nýrra og smærri útgerða með enduskoðun á kvótakerfinu.

Ég vil hvetja alla til þess að íhuga vel orð formanns samtaka iðnaðarins hér í upphafi. Á hverju ætlum við að lifa? Jafnvægi verður að ríkja á milli starfa í einkageiranum og hins opinbera. Til þess að slíkt sé mögulegt verður að huga að rekstrar og verðmætasköpun fyrirtækja og þeim gert gerlegt að starfa í öruggu umhverfi þar sem að sköttum og álögum er haldið í lágmarki svo hægt sé að halda fólki í starfi frekar en að segja þeim upp í samdrætti. Menntun verður að taka mið af þörfum atvinnulífsins og verður menntakerfið að taka tillögum þess efnis mjög alvarlega. Allir virðast vera sammála um að gera verði iðn og verknámi hærra undir höfði, samt sem áður vilja of fáir grunnskólanemendur velja þá leið að loknu námi. Brottfall nemenda úr framhaldsskólanámi er vísbending um að gera þurfi betur. Það er vitað að fjármunir skapast ekki í skúffum embættismanna og ákvarðanir teknar gegn frjálsu atvinnulífi verða ekki til þess að auknum fjármunum geti verið veitt í þágu velferðar og innviða. Kakan einfaldlega minnkar og báknið stækkar eins og staðan er í dag. Á hverju ætlum við að lifa?

Karen Elísabet Halldórsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi í Kópavogi